Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, segist hafa engan áhuga á því að taka þátt í formannsslag. Hann sé tilbúinn að gegna öðrum hlutverkum innan flokksins heldur en að vera formaður hans og styðji tillögu um að helstu embætti flokksins róterist á milli fólks. „Ég vil ganga í öll þau störf sem flokksmenn kunna að fela mér og gera mitt allra besta til að styðja aðra, sem aðhyllast okkar hugsjónir, í sömu verkum. Það á enginn að starfa í Bjartri framtíð með því skilyrði að hann sé formaður, eins og það sé aðalatriðið. Það gildir um mig, og aðra.“
Þetta segir Guðmundur í færslu á Facebook í dag. Eru þetta hans fyrstu viðbrögð frá því að Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrum stjórnarformaður flokksins og varaþingmaður, sagði í Vikulokum á Rás 1 á laugardag að hún sé tilbúinn að gerast formaður flokksins. Ársfundur Bjartrar framtíðar verður haldinn í byrjun september.
„Ég hef þá trú að í hverjum erfiðum kringumstæðum, hvort sem það er innan flokks, í þjóðfélagsmálunum eða hvar annars staðar, sé hægt finna leið sem einkennist af kærleika. Hann er kraftur sem er alltaf til staðar, en getur verið miserfitt að finna. Ég veit þetta kann að hljóma full hugljúft í eyrum einhverra, en ég meina þetta. Kærleikur er kraftur sem gerir aðstæður betri,“ segir Guðmundur á Facebook. færsluna má lesa í heild hér að neðan.
Staða Bjartrar framtíðar hefur verið mér og fleirum tilefni til mikilla og djúpra heilabrota um nokkurt skeið. Ég hef ...Posted by Guðmundur Steingrímsson on Monday, 10 August 2015
Fylgi Bjartrar framtíðar hefur hríðfallið undanfarið. Í könnun sem MMR birti í vikunni sögðust einungis 4,4 prósent kjósenda ætla að kjósa flokkinn. Miðað við það fylgi myndi Björt framtíð ekki ná inn manni í komandi kosningum. Í nýjustu könnun Gallup mælist fylgi Bjartrar framtíðar fimm prósent Flokkurinn mældist með um 20 prósent fylgi í könnunum í fyrrahaust.