Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, segir Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson vera langt komna með að koma Íslandi í fremstu röð allra þjóða í Evrópu með aðgerðum sínum. Hann hafi enga trú á öðru en að hinn almenni kjósandi sé samþykkur þeirra verkum og finni breytingu til batnaðar í veskinu sínu. "Þeir höfnuðu Icesave, þeir stóðu gegn aðild að ESB, þeir höfnuðu evrunni, þeir lækkuðu skuldir heimilanna. Þeir lækkuðu skatta, þeir björguðu heilbrigðiskerfinu og hjól atvinnulífsins eru farin að snúast á ný. Og stærsta verkefnið er komið á fulla ferð að frelsa og losa landið við gjaldeyrishöftin, hirða peninga af og skattleggja "hrægammasjóðina," og lækka skuldir ríkissjóðs," segir Guðni um þá Bjarna og Sigmund Davíð.
Þetta kemur fram í grein sem Guðni skrifar í Morgunblaðið í dag þar sem hann greinir stöðu mála í íslenskum stjórnmálum eftir eigin nefi.
Hæðist að róteringu Guðmundar Steingrímssonar
Í greininni hæðist Guðni að tillögu Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartrar framtíðar, um að rótera flokksforystunni og segir hana viðbragð við því að fylgi flokks hans sé komið niður fyrir pilsnerstyrkleika. "Við þekkjum þó þá umræðu að karlinn í brúnni eigi að víkja sé hann hættur að fiska, hvað þá róa. Við vitum líka að í áhöfn fiskibáts færi ekki vel ef klukkstefnan yrði tekin upp því skipstjórinn er leiðtogi og ekki öllum í áhöfninni fært að leysa hann af. Nákvæmlega er þetta eins í stjórnmálaflokki, enda formaður jafnan valinn á flokksþingum af flokksmönnum. En Guðmundur leggur til að það verði hlaupið í skarðið og þegar formaðurinn nýjasti hefur stýrt flokknum stutta stund hlaupi hann í kringum þingflokkinn og berji á bossann á einum og segji "klukk, klukk, þú ert formaður". Auðvitað vitum við öll að þetta er bara sagt út í loftið af formanni í vandræðum."
Pólitískur skringileiki skýrir fylgi Pírata
Guðni víkur því næst að stjórnarandstöðunni og segir að ef hann væri enn í pólitík og í minnihluta þá myndi hann hafa áhyggjur vegna þess að enginn þeirra flokka mælist nú með yfir tíu prósent fylgi. Þar skilur hann Pírata eftir utan mengin og segir að ástæða stöðu hinna stjórnarandstöðuflokkanna vera þá að "einhver pólitískur skringileiki gerir það að verkum að þriðji hver kjósandi hótar að kjósa Pírata næst. Hvers vegna, það veit enginn."
Því næst tekur Guðni stöðu stjórnarflokkanna fyrir og segir stöðu þeirra vera afar góða. "Sjálfstæðisflokkurinn er að rísa eftir mestu dýfu sem hann hefur tekið í 86 ára sögu sinni. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður flokksins, kemur vel fyrir, hefur gengið í gegnum margt og reynt erfiðleika og árásir en enginn ógnar honum lengur, hann er rísandi stjórnmálamaður, prúður og sanngjarn. Sama er um Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að segja, hann tók við Framsóknarflokknum í dauðateygjunum, klofnum og sundruðum en með stefnufestu og sterkri sýn og nýju fólki vann hann stærsta kosningasigur flokksins í hans hundrað ára sögu vorið 2013."
Telur að kjósendur muni sá að sér
Að mati Guðna eru þessir ungu stjórnmálamenn, með sínum "gömlu flokkum", langt komnir með að koma Íslandi á ný í fremstu röð allra þjóða í Evrópu. "Þeir höfnuðu Icesave, þeir stóðu gegn aðild að ESB, þeir höfnuðu evrunni, þeir lækkuðu skuldir heimilanna. Þeir lækkuðu skatta, þeir björguðu heilbrigðiskerfinu og hjól atvinnulífsins eru farin að snúast á ný. Og stærsta verkefnið er komið á fulla ferð að frelsa og losa landið við gjaldeyrishöftin, hirða peninga af og skattleggja "hrægammasjóðina," og lækka skuldir ríkissjóðs. Ég hef enga trú á öðru en hinn almenni kjósandi sé samþykkur þessu öllu og finni breytingu til batnaðar á veskinu sínu."