"Við hljótum að gera kröfu til þess að nú verði farið yfir þau lög og markmið sem bæði Framtakssjóðurinn, Promens og Landsbankinn búa við í lögum, samþykktum og markmiðum eigendanna," segir Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í morgun. Tilefnið er fréttaflutningur af því að Promens hyggist flytja höfuðstöðvar sínar úr landi vegna vandkvæða sem fylgja því að stunda alþjóðleg viðskipti í landi með fjármagnshöft.
Ráðamenn ætla að hirða gróða vogunarsjóða
Guðni segist hafa hrokkið í kút og spurt sig spurninga þegar fréttirnar af áætlunum Promens komu fram í fjölmiðlum. Hann hafi velt fyrir sér af hverju Seðlabankinn láti svona og skrifar að menn í sófanum heima segi " Seðlabankinn er vondur og ósanngjarn og ríkisstjórnin hálfu verri. Svo skýtur annarri hugsun upp í kollinum á undirrituðum en voru þeir ekki að tala um það ráðamenn þjóðarinnar, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, að í vetur ætli þeir að afnema gjaldeyrishöftin og hirða stóran hluta af gróða vogunarsjóðanna? Og þar með verði Ísland frjálst og fullvalda ríki á ný."
"Voru þeir ekki að tala um það ráðamenn þjóðarinnar, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, að í vetur ætli þeir að afnema gjaldeyrishöftin og hirða stóran hluta af gróða vogunarsjóðanna?," spyr Guðni Ágústsson.
Guðni fór í kjölfarið að velta því fyrir sér hver ætti þetta risastóra fyrirtæki og hvað valdi því að þeir eigendur vilji ekki hinkra til að sjá "efndir leiðtoganna"?. Þegar hann hafi kannað málið betur, og kynnt sér hverjir eigendur Promens eru, hafi "stóra bomban" komið eins og köld vatnsgusa yfir hann. "Fólkið í landinu á fyrirtækið, helmingseigandi er Landsbankinn, ríkisbanki. Hinn helminginn á Framtakssjóður Íslands og fólkið á þann sjóð í gegnum lífeyrissjóðina. Svo fer maður að lesa sér til um Framtakssjóðinn, þá var hann stofnaður af lífeyrissjóðum landsmanna í framhaldi af bankahruninu. Hver var tilgangurinn?
Lífeyrissjóðirnir vildu stuðla að endurreisn íslensks atvinnulífs og nýta fjárfestingartækifæri til að endurheimta hluta af tapaðri ávöxtun þeirra vegna hrunsins. Lífeyrissjóðirnir hafa ár hvert 120 milljarða af almennafé til fjárfestinga og ávöxtunar, miklir peningar þar."
Hefðu þeir líka selt Ísland hf.?
Guðni rifjar upp að Framtakssjóðurinn átti líka eitt öflugasta fiskútflutningsfyrirtæki Íslands í áratugi "með nafni landsins og hreinleikans, Icelandic". Hluti af starfsemi þess fyrirtækis var selt til Bandaríkjanna fyrir nokkrum árum. Guðni spyr: "Máttum við missa þetta öfluga útflutningsfyrirtæki og merki landsins, væri ekki gott að það væri enn í okkar höndum? Hvað ef þeir Framtakssjóðs- og Landsbankamenn hefðu átt fyrirtæki undir merkinu Ísland hf.? Hefðu þeir einnig selt það?
Í mínum huga er þetta framferði og ætlunarverk sem fréttir helgarinnar sögðu frá ekki sprottið af neyð, þar ráða einhver önnur sjónarmið.
Í mínum huga er þetta framferði og ætlunarverk sem fréttir helgarinnar sögðu frá ekki sprottið af neyð, þar ráða einhver önnur sjónarmið. Á sama tíma og ákveðin öfl brjótast um með þessum hætti með fulla vasa fjár af peningum sem landsmenn eiga þá heyrir maður af mörgum öðrum fyrirtækjum erlendum sem eru að koma hingað eða íhuga það þrátt fyrir að gjaldeyrishöft séu enn til staðar, ég minni á bandarísku verslunarkeðjuna Costco. Við hljótum að gera kröfu til þess að nú verði farið yfir þau lög og markmið sem bæði Framtakssjóðurinn, Promens og Landsbankinn búa við í lögum, samþykktum og markmiðum eigendanna."