Í tíufréttum RÚV í gærkvöldi fagnaði Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, auknum áhuga kínverskra fjárfesta á því að fjárfesta hér á landi. Þá finnst honum menn alltof neikvæðir í garð áforma um álver í Skagabyggð og vonar að þau nái fram að ganga.
Kínverskir fjárfestar hafa lagt inn sex milljarða króna inn í fyrirtækið Carbon Recycling, og aðrir fjárfestar frá Kína vilja reisa álver við Hafursstaði í Skagabyggð. Þá hefur verið greint frá áhuga kínverskra fjárfesta á því að kaupa hlut í Íslandsbanka.
Í samtali við RÚV sagði Gunnar Bragi að þessum áhuga bæri að fagna og hann sæi engan mun á því að peningar væru að koma frá Kína frekar en annars staðar. Um álvershugmyndina sagði Skagfirðingurinn sérstaklega: „Mér finnst menn alltof svartsýnir og draga upp neikvæða mynd af þessu í fjölmiðlum í dag, í stað þess að horfa á þá mikilvægu uppbyggingu sem getur orðið og hversu miklu máli þetta skiptir fyrir landsvæðið. Ég vona svo sannarlega að þetta verði að veruleika.“
Í stuttu máli þá furðar utanríkisráðherrann sig á því að fólk sé alltof neikvætt í garð álversáforma, sem er í besta falli einkennileg yfirlýsing í ljósi umræðunnar á Íslandi, þar sem fleiri og fleiri hafa snúið baki við stóriðjustefnunni sem meðal annars Framsóknarflokkurinn hefur rekið undanfarin ár.
Og þá skiptir það utanríkisráðherrann engu máli hvaðan peningarnir koma sem nota á til að fjárfesta á Íslandi. Er það ekki svolítið ógnvekjandi fullyrðing? Verða íslenskir kjósendur ekki að geta treyst því að stjórnmálamenn, sem þeir kjósa til valda, séu að minnsta kosti aðeins á varðbergi þegar stórþjóð á borð við Kína, sem horfir langt fram í tímann, bankar upp á?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.