Baggalúturinn og fjölmiðlamaðurinn Guðmundur Pálsson lenti í miður skemmtilegri lífsreynslu í Barcelona á sunnudagskvöldið, þegar gerð var tilraun til að ræna hann.
„Ég var nýbúinn að skutla tengdafjölskyldunni og stráknum okkar, sem voru hjá okkur um páskana, út á flugvöll og var kominn inn í borgina aftur, þegar leigubílstjóri sem var stopp við hliðina á mér á umferðarljósum fór að senda mér skilaboð með allskonar handapati. Benda á augun á sér og gefa mér allskyns merki. Ég skildi ekki upp eða niður. Hélt ég hefði svínað fyrir hann eða farið yfir á rauðu og hann væri að segja mér að fara varlega. Svo uppgötvaði ég að það var sprungið á bílnum. Það var ekki hægt að stöðva bílinn þar sem ég var, þannig að ég neyddist til að keyra hann lengra en ég hefði viljað, en náði svo loks að stoppa við umferðarljós í hverfinu okkar,“ segir Guðmundur í samtali við Kjarnann.
Tilraunir til að skipta um dekk í myrkrinu gengu illa og því neyddist Guðmundur til að þræla bílnum á sprungnu dekki í bílakjallara, þar sem þau leigja stæði fyrir bílinn.
Guðmundur hefur á undanförnum mánuðum ferðast um þjóðvegi Evrópu ásamt eiginkonu sinni og tveimur ungum börnum á fjölskyldubílnum sem þau fluttu með úr Vesturbænum í Reykjavík yfir á meginlandið. Guðmundur hefur fært viðburðaríka ferðasögu fjölskyldunnar til heimilda í hlaðvarpsþáttunum Pabbi þarf að keyra, sem aðgengilegir eru í Hlaðvarpi Kjarnans.
Mynd af Fésbókarsíðu Gumma Páls.
Eftir raunir sunnudagskvöldsins setti Guðmundur varadekkið undir fjölskyldubílinn og hélt á verkstæði með sprungna dekkið. „Þegar ég mætti á verkstæðið spurðu þeir mig hvort dekkið hefði verið farþegamegin að aftan. Þegar ég jánkaði því, báðu þeir um að fá að sjá dekkið og sýndu mér hvar stungið hafði verið gat á það með hnífi. Þetta væri svona dæmigert trix. Líklega hefðu tveir bandítar á vespu verið að verki. Það átti sem sagt að ræna kallinn við vegakantinn. Sennilega hefur leigubílstjórinn séð til þeirra og verið að vara mig við.“
Guðmundur segir að útlenskar númeraplötur hafi vafalaust dregið athygli þjófanna að bílnum, og sömuleiðis það að hann hafi verið einn á ferð. „Þeir hafa sennilega kíkt í bílinn á meðan ég lá undir honum þarna í myrkrinu við umferðarljósin og ekki séð neitt þar til að hafa með sér,“ segir Guðmundur í samtali við Kjarnann aðspurður um mannaferðir við bílinn þar sem hann stóð út í vegakanti. „Það var einhver umferð þarna, bílar og vespur sem stoppuðu við hliðina á mér. Ég skildi hurðina meira að segja eftir opna, þannig að ég hef verið auðveld bráð.“
Aðspurður um hvort sér hafi verið brugðið, svaraði Guðmundur: „Nei, ekki baun. Flestir sem eru rændir hérna eru rændir af því að þeir pössuðu sig ekki og það er sjaldan ofbeldi í spilinu.“
Reikna má með að ránstilrauninni verði gerð frekari skil í komandi hlaðvarpsþáttum af Pabbi þarf að keyra, en næsti þáttur fer í loftið á laugardaginn klukkan 11:30.