Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er staddur í Addis Ababa í Eþíópíu þessa dagana, þar sem fram fer þriðja alþjóðlega ráðstefnan um fjármögnun þróunarsamvinnu, Financing for Development. Þetta er fyrsta ferð hans til Afríku.
Ráðstefnan hófst í gær og Gunnar Bragi var með ávarp á málstofu um fjármögnun sjálfbærrar orku, og tók þátt í annarri málstofu um fjárfestingu í jafnrétti kynjanna. Hann fundaði einnig með ráðherra innviða og orkumála hjá Afríkusambandinu um jarðhitasamstarf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Að ráðstefnunni lokinni fer Gunnar Bragi til Malaví að skoða starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar og funda með ráðamönnum. RÚV greindi frá því í gærkvöldi að enginn starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar verður með honum í för.
Utanríkisráðuneytið segir í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið að vegna þess að ráðstefnan í Eþíópíu er skipulögð af Sameinuðu þjóðunum fellur hún undir starfssvið utanríkisráðuneytisins en ekki Þróunarsamvinnustofnunar. Þess vegna er enginn starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar á ráðstefnunni. Með Gunnari Braga í för þar eru hins vegar Sunna Gunnars Marteinsdóttir, aðstoðarmaður hans, María Erla Marelsdóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins og sendiherra Íslands gagnvart bæði Eþíópíu og Malaví, og María Mjöll Jónsdóttir hjá fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York. María Mjöll tekur þátt í samningafundum fyrir hönd Íslands á ráðstefnunni en fer ekki til Malaví.
Í Malaví mun Vilhjálmur Wium, umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar í Lilongwe, á móti ráðherranum og fylgdarliði hans.