Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sótti í dag varnarmálaráðherrafund Atlandshafsbandalagsins í Brussel, og sagði í ræðu sinni að það væri mikilvægt fyrir bandalagsþjóðir að bregðast við áhyggjum af vaxandi óstöðugleika. Á fundinum eru aðgerðir til að efla sameiginlega varnar- og viðbragðsgetu bandalagsins efst á baugi, auk framkvæmdar viðbúnaðaráætlunar sem samþykkt var á leiðtogafundinum í Wales síðastliðið haust. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Ráðherrarnir ræddu um breytingar á öryggisumhverfinu í Evrópu, en megináhersla varnarmálaráðherranna beinist að því að styrkja sameiginlega varnar- og viðbragðsgetu bandalagsins, meðal annars með því að efla viðbragðssveitir, fjölga æfingum og með því að koma upp aðstöðu fyrir hraðsveitir í nokkrum ríkjum bandalagsins í austan- og sunnanverðri Evrópu.
Lýstu ráðherrarnir yfir áhyggjum sínum af vaxandi óstöðugleika á svæðum suður og austur við Evrópu sem á rætur sínar í ýmiskonar áskorunum og ógnum, þar með talið ISIL.
Í ræðu sinni lagði Gunnar Bragi áherslu á eflingu viðbúnaðar vegna öryggis á hafi. Hann sagði einnig að Atlantshafsbandalagið hefði eflt og styrkt sameiginlegar varnir ásamt því að stuðla að áframhaldandi samskiptum og samráði til að draga úr spennu.
Bandaríkin efla viðbúnað
Í gær tilkynnti Ashton Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að Bandaríkjaher myndi efla viðbúnað sinn í Evrópu vegna vaxandi ógnar frá Rússlandi, í tengslum við átök Rússa og Úkraínumanna. Má aðstoðin einkum ná til Austur-Evrópu ríkja, Lettlands, Litháen, Eistlands, Póllands, Búlgaríu og Rúmeníu. Bandaríkjaher mun fjölga skriðdrekum og styrkja vopnabúr NATO ríkja, að því er fram kom í máli Carters í gær.