Þegar Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, ákváðu upp á sitt eindæmi að setja Ísland á „lista hinna staðföstu þjóða“ til stuðnings hernaðaraðgerðum bandamanna í Írak á vordögum árið 2003, mætti ákvörðunin mikilli gagnrýni í samfélaginu og á hinu háa Alþingi. Ekki síst fyrir þær sakir að ákvörðunin skyldi ekki hafa verið borin undir utanríkismálanefnd þingsins, og þar fór þingmaður stjórnarandstöðunnar að nafni Össur Skarphéðinsson mikinn.
Sami Össur ákvað svo nokkrum árum síðar, þegar hann var sjálfur orðinn utanríkisráðherra, nánar tiltekið árið 2011, að undirrita reglugerð um þvingunaraðgerðir gegn Líbíu án þess að spyrja kóng né prest og hvað þá utanríkismálanefnd Alþingis. Og viti menn, ákvörðun Össurar var harðlega gagnrýnd.
Gunnar Bragi Sveinsson, núverandi utanríkisráðherra, hefur meðal annars vísað til ofangreindra dæma til að réttlæta nýlega ákvörðun sína að bera ekki, að svo er virðist að minnsta kosti, máttlausa tilraun sína til að slíta viðræðum við Evrópusambandið undir nefndina. Fyrst Davíð, Halldór og Össur höfðu ekki fyrir því að hafa utanríkismálanefnd þingsins með í ráðum, af hverju í ósköpunum skyldi hann þá gera það?
Pæling Kjarnans: Er það boðlegt að vísa til gagnrýniverðra og umdeildra vinnubragða í fyrndinni til að réttlæta gagnrýniverð og óboðleg vinnubrögð í dag? Eru umdeildar ákvarðanir vel til þess fallnar að réttlæta fleiri umdeildar ákvarðanir? Er slík röksemdarfærsla líkleg til að setja gott fordæmi íslenskri stjórnmálamenningu til heilla?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.