Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra og fyrsta þingmanni norðvesturkjördæmis, þykir Íslendinga hafa skort framtíðarsýn í ferðaþjónustu og þykir tími til kominn að setja skatt á flugmiða til að fjármagna innviði ferðaþjónustunnar. Þetta segir hann í viðtali við Skessuhorn í dag.
Íslendingar hafi setti mikla fjármuni í að byggja upp vegakerfið en ekki gert ráð fyrir svo mikilli aukningu í ferðaþjónustunni eins og raunin hefur verið undanfarin ár. „Fyrir vikið þá eru vegirnir og ferðamannasvæði ekki tilbúin að taka við öllu þessu fólki,“ segir Gunnar Bragi og bætir við að nú horfi við bjartari tímar.
„Núna þegar efnahagurinn fer að batna þá verðum við að setja meiri fjármuni í vegakerfið. Ekki bara að og frá vinsælustu ferðamannastöðunum heldur líka bæta vegakerfið þannig að það verði auðveldara að dreifa ferðamönnum um landið,“ segir hann. „Þetta er auðvitað öðrum þræði mjög stórt byggðamál.“
Gunnar Bragi segir peninga til endurbóta verða að vera sótta til ferðamanna, en ekki bara í ríkissjóð. Hann leggur til að skattur verði lagður á flugmiða til landsins, eins og gerist víða í Bandaríkjunum. „Ég held að það sé kominn tími til að setja einhverskonar skatt á fólk þegar það kemur til landsins, svo sem á flugmiða,“ segir hann við Skessuhorn. „Það verður þá bara að hafa [það] þó að Íslendingar þurfi að greiða hann líka.“
Undir eru allir innviðir ferðaþjónustunnar, ekki aðeins vegir heldur einnig fjarskiptamál því að mati Gunnars Braga geta ferðaþjónustufyrirtæki ekki búið við ótryggt netsamband á landsbyggðinni.