Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir það óheiðarlegt hvernig sumir útgerðarmenn hafa talað um ákvörðun Íslands um að styðja viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Ef menn taki eiginhagsmuni fram yfir heildarhagsmuni þá veltir hann því óneitanlega fyrir sér hvort þeir séu bestu mennirnir til að fara með auðlindina. Þetta er meðal þess sem kom fram í útvarpsþættinum Sprengisandi í dag.
Gunnar Bragi ræddi þar um bann Rússa ásamt Jens Garðari Helgasyni, formanni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Jens fór yfir hversu miklir hagsmunir væru undir vegna veru Íslands á listanum og það mögulega tap sem sjávarútvegurinn gæti orðið fyrir. Gunnar Bragi sagði óljóst hvert tjónið yrði, ef það yrði eitthvað. Það myndi ráðast á því hvernig gangi að selja vörur á öðrum mörkuðum.
Gunnar Bragi sagði að það hafi mátt búast við því að Ísland myndi lenda á lista Rússa yfir þjóðir sem innfluttningsbann gildir gagnvart. Hann segir það ekki hafa verið rætt um að hætta að styðja viðskiptavinganir helstu bandamanna Íslands gegn Rússum vegna viðskiptahagsmuna. "Ég hef ekki hugsað það þannig," sagði Gunnar Bragi. Hann vitnaði svo í pistil eftir Pawel Bartoszek, sem birtist í Fréttablaðinu í gær, til að útskýra hvað valdi því að Ísland styðju aðgerðirnar gegn Rússum vegna innlimunar þeirra á Krímskaga í Úkraínu. Þar sagði Pawel: "Umhverfis Ísland er 200 mílna landhelgi. Okkar fáu varðskip geta vitanlega ekki varið þessa eign okkar að ráði, nema hugsanlega fyrir einstaka veiðiþjófi á furðufána. Við eigum allt okkar undir því að borin sé virðing fyrir alþjóðalögum og landhelgi ríkja sé virt. Í ýtrustu neyð þurfum við síðan að reiða okkur á það að aðrar þjóðir verði tilbúnar til að leggja líf eigin borgara í hættu til þess að við fáum áfram að eiga okkar fisk í friði. Við getum ekki ætlast til að þær geri það umhugsunarlaust ef við sjálf erum ekki til í að færa neinar fórnir.“
Segir að Davíð Oddsson ætti að líta í spegil
Utanríkisráðherra var síðan mjög harðorður þegar hann ræddi orðræðu ýmissa forkálfa sjávarútvegsfyrirtækja um ákvörðun Íslands að styðja aðgerðir gegn Rússum. Hann nefndi þar sérstaklega Gunnþór Ingvason, forstjóra Síldarvinnslunnar, sem hefur sagt að stjórnvöld á Íslandi eigi ekki að taka þátt í því að beita Rússa viðskiptaþvingunum, heldur gæta hlutleysis í málinu. Utanríkisráðherra, og hans fólk, eigi að einbeita sér að því að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja.
Gunnar Bragi sagði óheiðarlegt hvernig þessir menn töluðu og hvatti Síldarvinnsluna til að taka sér engan arð á aðalfundi sínum í vikunni til að takast á við þá stöðu sem er uppi. Hann var líka spurður út í Reykjavíkurbréf sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, og virðist vera skrifað af Davíð Oddssyni, fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins og nú ritstjóra Morgunblaðsins. Í bréfinu sendi Davíð Gunnari Braga tóninn og sagði meðal annars: "Fagráðherrann tekur hins vegar heiti ráðuneytisins alvarlega og heldur sig helst utan ríkis og lætur „sína menn“ (eins og Össur kallaði þá og gerir víst enn) um alla stefnumótun, sem er létt verk, enda stefnan í stórum dráttum óbreytt[...]Sagði enginn í utanríkisráðuneytinu ráðherranum frá því, þegar hann leit við heima, um hvers konar viðskiptabann væri að ræða? Og ef þeir gerðu það, kom hann þá þeim upplýsingum á framfæri við ríkisstjórnina?".
Gunnar Bragi sagðist gefa lítið fyrir gagnrýni Davíðs. Við Davíð vilji hann segja: "Líttu í spegil og hugsaðu aðeins um hvernig var staðið að því þegar ráðist var inn í Írak sem dæmi“. Davíð var forsætisráðherra þegar ákvörðun var tekin um að styðja innrásina í Írak á sínum tíma.
Utanríkisráðherrann sagði það síðan holan hljóm þegar talsmenn sjávarútvegsfyrirtækjanna væru að tala um að hagsmunir þjóðarinnar væru undir vegna ákvörðunar um að styðja viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Útflytjendurnir væru fyrst og síðast að hugsa um næsta ársreikningi. Hann kallaði eftir því að þessir aðilar, sem treyst er fyirr auðlindinni, sýni samfélagslega ábyrgð. Ef menn taki eiginhagsmuni fram yfir heildarhagsmuni þá telji Gunnar Bragi óneitanlega rétt að velta fyrir sér hvort þeir séu bestu mennirnir til að fara með auðlindina.
Gunnar Bragi sagði það koma til greina að lækka veiðigjöld vegna þeirra aðstæðna sem komnar eru upp. Það kæmi hins vegar einungis til greina til að verja störf þess fólks sem starfar í sjávarútvegi, ekki til að verja arð fyrirtækjanna innan greinarinnar.