Gústaf Adolf Níelsson gagnrýnir Framsóknarflokkinn fyrir viðbrögð við skipun hans sem fulltrúa flokksins í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar. Þetta gerir hann í pistli sem hann skrifar á Facebook-síðu sína.
„Ég dreg þá djörfu ályktun, að hin hörðu viðbrögð þeirra, sem öðrum fremur elska tjáningarfrelsið og fjölbreytileikann, séu vegna þess að þeir vilja af öllum lífs og sálarkröftum þagga niðrí mér. En þeim verður auðvitað ekki að ósk sinni, jafnvel þótt fjölmiðlar dragi fram ráðherra Framsóknarflokksins í misjöfnu pólitísku ástandi, en þó með hleypidómana á hraðbergi,“ skrifar Gústaf meðal annars. Hann segist finna til með þeim ráðherrum sem gagnrýndu skipunina.
Gústaf segist hafa fengið „fjölmargar vingjarnlegar símhringingar frá fólki hringinn í kringum landið, auk tölvupósta og annarra sendinga, sem nútímatæknin bíður upp á.“ Þó hafi það tekið á að vera miðdepill samfélagsumræðunnar einn dag, „þar sem hælbítar og árar andskotans hamast á manni.“
Þá segist hann ætla að halda ótrauður áfram „og óhikað taka íslenska þjóðmenningu framyfir lítt skilgreinda fjölmenningu. Ég held að ekkert sé að marka þetta „þjóðmenningarmas" framsóknarmannanna, en vonandi halda þeir áfram að finna „stefnuna og grunngildin".
Kosningastjóri efast um tjáningarfrelsi
Margir leggja orð í belg á síðu Gústafs um málið. Þeirra á meðal er Svanur Guðmundsson, sem var kosningastjóri Framsóknar og flugvallarvina í kosningunum síðastliðið vor og er eiginmaður Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur borgarfulltrúa flokksins. Svanur segist efast um að það „sé tjáningarfrelsi hér á landi.“