Hádegismatur með fjárfestinum Warren Buffett var sleginn hæstbjóðanda fyrir 2,35 milljónir bandaríkjadalam eða ríflega 314 milljónir íslenskra króna, á föstudaginn. Kínverska leikjafyrirtækið Da Lian Zeus Entertainment átti hæsta boðið í hádegismat með fjárfestinum heimsfræga. CNN Money greinir frá málinu.
Buffett efnir til uppboðs á eBay árlega, þar sem hann býður upp hádegisverð með sér, en ágóðinn af uppboðinu rennur allur til góðgerðarmála. Á síðasta ári pungaði viðskiptajöfur frá Singapúr út 2,2 milljónum dala fyrir að spjalla við Buffett yfir málsverði í hádeginu. Hæsta verð sem fengist hefur fyrir hádegisverð með bandaríska fjárfestinum eru 3,5 milljónir bandaríkjadala, eða hátt í hálfur milljarður íslenskra króna, árið 2012. Sá sem átti hæsta boðið þá óskaði nafnleyndar.
Samkvæmt skilmálum uppboðsins má sá sem á hæsta boðið taka með sér allt að sjö vini til hádegismálsverðarins, sem fer venjulega fram á sama steikhúsinu í New York.
Margir sem taka þátt í uppboðinu vonast til þess að fá tækifæri til að vinna með Buffett, og reyna hvað þeir geta eina hádegisstund til að sannfæra bandaríska auðkýfinginn um ágæti sitt. Síðan árið 2004 hefur hins vegar einungis einum áhugasömum tekist að ráða sig til vinnu hjá Buffett, en sá átti hæsta boð í hádegisverðinn tvö ár í röð og þurfti að reiða fram samtals 5,3 milljónir bandaríkjadala.
Fæstir fá að vinna með Buffett, en eru þakklátir fyrir þau góðu ráð sem hann gefur sessunautum sínum er þeir snæða hádegismatinn. Á síðustu fimmtán árum hefur Buffett safnað ríflega 20 milljónum dala til góðgerðarsamtaka.
Árið 2010 tilkynnti Buffett, ásamt Bill og Melinda Gates, að hann muni gefa nær allan auð sinn frá sér á lífsleiðinni eða í erfðaskrá. Framtakið heitir Giving Pledge, en hundruð milljarðamæringa hafa nú þegar ákveðið að taka þátt í verkefninu.