Þeir sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009, og sóttu um niðurfellingu á hluta lána sinna í leiðréttingaraðgerð ríkisstjórnarinnar, geta látið það fé sem þeim var úthlutað renna til ríkissjóðs. Það gera þeir með því að samþykkja ekki niðurstöðu útreikninganna, en flestir þurfa að gera það í desembermánuði. Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnastjóri skuldaleiðréttinganna, staðfestir í samtali við Kjarnann að ef fólk sem sótti um kýs að þiggja ekki niðurfellinguna þá muni sú upphæð sem þeim var reiknuð sitja eftir í ríkissjóði.
Allir sem hafa fengið birta niðurstöðu úr skuldaniðurfellingaumsókn sinni þurfa að staðfesta hana áður en byrjað verður að greiða inn á höfuðstól lánanna. Kjósi umsækjandi að sleppa því að staðfesta umsókn sína verða þeir fjármunir sem áttu að renna til hans í formi höfuðstólslækkunar eftir í ríkissjóði. Hefði viðkomandi sleppt því að sækja um höfuðstólslækkun hefði upphæðin hins vegar dreifst á aðra sem sóttu um skuldaniðurfellingu.
Tryggvi Þór Herbertsson er verkefnastjóri Leiðréttingarinnar.
36 milljarðar í stað 40 milljarða
Samkvæmt fjárlögum átti að greiða 20 milljarða króna inn á niðurfærslu á verðtryggðum lánum þeirra sem voru með slík lán á árunum 2008 og 2009 á þessu fjárlagaári. Þegar niðurstöður skuldaniðurfellinganna voru kynntar fyrr í þessum mánuði kom fram að fjármögnunartími aðgerðanna hafi verið styttur. Í kynningunni kom fram að 40 milljarðar króna verði „greiddir inn á leiðréttingalánin á þessu ári“. Upphæðin átti því að hækka um 20 milljarða króna.
Í breytingartillögu við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2014 segir hins vegar að viðbótarframlag vegna niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðisskuldum þeirra heimila sem voru með slík lán á árunum 2008 og 2009 verði 15,8 milljarðar króna, ekki 20 milljarðar króna.
Tryggvi Þór segir þetta vera vegna þess að ekki muni allir ná að samþykkja niðurfærslur sínar fyrir áramót og því flytjist hluti upphæðarinnar til milli ára.