Ekki er allt með felldu í því samspili hagstærða á Íslandi sem veldur miklum hækkunum á húsnæðismarkaði, sem leiðir svo af sér verðbólgu sem leiðir af sér vaxtahækkanir sem leiða af sér hærri afborganir af húsnæðislánum. Þetta skynji flestir og spurningin er hvort það sé ekki kominn tími til að breyta þessu kerfi?
Að þessu spyrja hagfræðingarnir Gylfi Zoega, prófessor við Háskóla Íslands, og Kjartan B. Bragason, sem er sjálfstætt starfandi, í grein sem þeir skrifa saman í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Í greininni benda þeir á að það væri til dæmis hægt að „láta hækkanir á verði íbúðarhúsnæðis koma hægar inn í vísitölu neysluverðs eins og margoft hefur verið bent á. Það væri einnig hægt að láta fasteignagjöld fara eftir stærð híbýla en ekki markaðsverði vegna þess að stærð mælir fremur þjónustuþörf en markaðsverðmæti, fjölda einstaklinga sem búa í eign.“
Væntingar um hærra gengi valda gengishækkun
Hér eigi sér stað flókið samspil þar sem fólksfjölgun – í formi aðfluttra umfram brottfluttra – geti valdið verulegum ófyrirséðum breytingum á eftirspurn og/ eða framboði á húsnæði með tilheyrandi verðhækkunum eða lækkunum auk þess sem vaxtabreytingar Seðlabankans hafi mikil áhrif á húsnæðisverð. „Samspil húsnæðisverðs, fasteignamats, verðbólgu og vaxta verður nú enn flóknara þegar í ljós kemur að sveiflur raungengis auka aðflutning fólks til landsins sem síðan veldur hækkun húsnæðisverðs, sem veldur hærri verðbólgumælingu, hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána, hærri fasteignagjöldum og hækkandi vöxtum seðlabanka. En hvað veldur hærra raungengi?.“
Þeir svara spurningunni svo sjálfir og segja ýmsa þætti koma þar við sögu. Bætt viðskiptakjör, aukinn sjávarafli, fleiri erlendir ferðamenn, færri Íslendingar sem fara til útlanda og erlendar fjárfestingar leiða til að mynda til hærra raungengis. „Ekki þarf annað en að væntingar myndist um hærra gengi krónunnar og útflytjendur flýti sér að skipta erlendum gjaldeyri í krónur sem síðan veldur gengishækkun og þar með hærra raungengi sem svo hefur þau áhrif sem hér hefur verið lýst.“