Heilbrigðisráðuneytið áformar að setja inn í lög um heilbrigðisþjónustu ákvæði um „cumulativa“ og hlutlæga refsiábyrgð heilbrigðisstofnana, þar sem ljóst þykir að ákvæði almennra hegningarlaga um refsiábyrgð lögaðila eigi ekki nægilega vel við þegar til athugunar eru alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu.
Sjúkrastofnanir á Íslandi gætu þannig verið látnar sæta refsiábyrgð, sem stofnanir, í tilfellum þar sem ljóst þykir að kerfislegur vandi, margir samverkandi þættir eða röð atvika hafi verið orsök alvarlegs atviks, án þess að einstaka starfsmönnum verði um kennt.
Ekki er hægt að koma fram refsiábyrgð gagnvart heilbrigðisstofnunum á Íslandi í dag nema á grundvelli almennra hegningarlaga og þá einungis í þeim tilvikum þar sem hægt er að sanna sök tiltekins einstaklings, en til stendur í að breyta því.
Áform heilbrigðisráðuneytisins um lagasetninguna eru kynnt í skjali sem birtist á samráðsgátt stjórnvalda í gær.
Rannsóknir verði fyrst og fremst á borði landlæknisembættisins
Þar segir einnig um lagabreytingarnar að til athugunar sé hvort rétt sé að breyta lögum á þann veg að rannsókn óvæntra atvika í heilbrigðisþjónustu fari „fyrst og fremst fram hjá embætti landlæknis en ekki samtímis hjá lögreglu“, en þó myndi embætti landlæknis geta kært mál til lögreglu þegar grunur væri um stórkostlegt gáleysi eða ásetning.
Lögregla gæti svo eftir sem áður, þegar tilefni er til, tryggt rannsóknarhagsmuni í upphafi máls, til dæmis með haldlagningu gagna eða skýrslutökum.
Starfshópur hefur verið stofnaður til að vinna frumvarp um þessar breytingar, en fyrirhugað er að starfshópurinn ræði sérstaklega við fulltrúa félagasamtaka sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta og sömuleiðis að hann fái fram sjónarmið sjúklinga sem orðið hafa fyrir alvarlegum atvikum í heilbrigðisþjónustu eða aðstandenda þeirra.
Í skjalinu á samráðsgáttinni segir að þess megi vænta að ef frumvarpið verði að lögum megi gera ráð fyrir því að fjölga þurfi um hálft til eitt stöðugildi hjá embætti landslæknis til að sinna rannsóknum, sem kosti um 7-13 milljónir króna á ársgrundvelli.
Að sama skapi megi ætla að verkefnum lögregluembætta fækki, að minnsta kosti sem nemur sama fjölda stöðugilda og bætast við hjá embætti landlæknis, „ef ekki meira vegna fækkunar mála þar og samlegðaráhrifa af sameiningu rannsókna.“