Jáeindaskanninn, sem Íslensk erfðagreining ætlar að gefa Landsspítalanum, mun nýtast í um tvö þúsund rannsóknir á ári. Þetta er meðal þess sem kom fram í minnisblaði Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra sem lagt var fyrir ríkisstjórnarfund í morgun.
Þar segir einnig að árið 2012 hafi 29 sjúklingar verið sendir frá Íslandi til rannsókna í jáeindaskannanum við Rikshospitalet í Kaupmannahöfn, 87 árið 2014 og áætlað að þeir verði á bilinu 140 til 160 í ár. Heildarkostnaður við hverja rannsókn, að meðtöldum kostnaði vegna ferða og uppihalds nemur 400 til 500 þúsund krónum. Því er áætlaður kostnaður vegna ferðanna í ár allt að 80 milljónir króna.
Gjöf frá Íslenskri erfðagreiningu
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, færði Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra ávísun á jáeindaskanna þann 12. ágúst síðastliðinn en slíkt tæki hefur aldrei verið til á Íslandi. Með skannanum má áætla nákvæmari staðsetningu krabbameina og þannig beina geislameðferð nákvæmlega á staðinn.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Auk þess að vera mikilvægt tæki í krabbameinslækningum hefur það reynst vel við greiningu á Alzheimers-sjúkdómnum. Með tækinu er hægt að fylgjast með virkni heilans, til að mynda þegar hann leysir úr ákveðnum verkefnum, eða virkni annara líffæra og getur þess vegna verið mikilvægt tæki til vísindarannsókna á sjúkdómum í hinum ýmsu líffærum.
Tækið kostar um það bil 800 milljónir íslenskra króna og þarf sérhæft starfsfólk til þess að annast tækið. Tækið er nokkuð stórt og fyrir það þarf að öllum líkindum að ráðast í nýbyggingar eða hagræða í núverandi húsnæði.
Í gagnið eins fljótt og mögulegt er
Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu í dag kemur fram að undirbúningur að uppsetningu jáeindaskannans sé hafin hjá Landsspítalanum og að lögð sé áhersla á að koma honum í notkun eins fljótt og mögulegt er. Uppsetning skannans kallar á töluverðar framkvæmdir þar sem hann þarf um 250 fermetra húsnæði sem uppfyllir strangar kröfur um geislavarnir.