Öll hlutabréf í Kauphöllinni hækkuðu í dag að hlutabréfum Granda undanskildum, sem lækkuðu um 1,6 prósent í um 380 milljóna króna viðskiptum. Á skuldabréfamarkaði lækkaði krafa óverðtryggðra ríkisbréfa sem túlka má sem jákvæðar fréttir fyrir ríkissjóð.
Dagurinn var heldur óvenjulegur á mörkuðum en engin viðskipti voru með ríkisskuldabréf né íbúðabréf þar til klukkan tvö. Sama gilti um hlutabréf í tryggingafélögum. Ástæðan var boðaður blaðamannafundur stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins voru viðskipti stöðvuð þar til eftir fundinn til þess að vernda jafnræði fjárfesta.
Á markaði mátti skynja jákvæð viðbrögð við því sem fram kom á blaðamannafundinum og var mest hreyfing á markaðinum eftir að fundinum lauk. Mest hækkuðu hlutabréf í Nýherja, alls um 9,7 prósent, en upphæð viðskipta nam þó einungis fimm milljónum króna. Hjá öðrum félögum nam hækkunin á bilinu um 1,1 til 2,9 prósentum. Mest voru viðskipti með bréf Icelandair Group, alls um 742 milljónir króna, en einnig voru töluverð viðskipti með bréf Eimskips, Marel og Granda. Alls hækkaði OMXI8 hlutabréfavísitalan um 1,6 prósent.
#OMXI8 hækkaði um 1,58% í dag. Skuldabréfavísitalan #NOMXIBB hækkaði um 0,3%. Verðtryggða um 0,14% og óverðtryggða um 0,69% #höftin
— Nasdaq Iceland (@NasdaqIce) June 8, 2015