„Fyrstu niðurstöður um áhrif breytinga á neyslusköttum á verðlag matvara gefa skýra vísbendingu um að hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts hafi þegar skilað sér að fullu út í verðlag en í flestum verslunum séu áhrif af afnámi vörugjalda enn mjög takmörkuð.“ Þannig hljóðar fyrsta málsgreinin í fréttatilkynningu frá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), sem send var fjölmiðlum síðdegis.
Þar kemur fram að matvara hafi hækkað umtalsvert í verði undanfarinn mánuð samkvæmt fyrstu niðurstöðum úr verðmælingum verðlagseftirlits ASÍ í matvöruverslunum í kjölfar breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum. Eins og kunnugt er hækkaði virðisaukaskattur á matvöru úr sjö prósentum í ellefu prósent auk þess sem sykurskatturinn svokallaði var afnuminn.
Samkvæmt verðmælingu ASÍ hækkaði matvörukarfan mest í versluninni Víði, eða um 5,2 prósent frá því í lok nóvember, sem Alþýðusambandið fullyrðir að sé umtalsvert meiri hækkun en neysluskattsbreytingarnar um áramót gefi tilefni til. Að mati verðlagseftirlits ASÍ gefa breytingarnar tilefni til um það bil 1,5 prósenta hækkunar á matarkörfunni.
Í versluninni Kjarval hækkar matarkarfa ASÍ minnst á milli mælinga, eða um 0,7 prósent.
Mynd úr fréttatilkynningu ASÍ.