Á mánudag kynnti ríkisstjórnin nokkrar aðgerðir sem hún ætlaði að grípa til sem áttu á liðka fyrir kjarasamningsgerð og hjálpa lág- og millitekjuhópum í samfélaginu. Ein stærsta aðgerðin var kerfisbreyting á barnabótakerfinu.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði þar að verið væri að einfalda kerfið með því að draga úr skerðingum og með því að lækka jaðarskatta af völdum barnabóta. Teknar yrðu upp samtímagreiðslur barnabóta sem þýða að þær fara að greiðast í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir að barn fæðist í stað þess að bíða þurfi fram að næstu áramótum til að fá barnabætur. Þessi breyting átti að skila því að fjölskyldum sem fá barnabætur fjölgað um 2.900.
Í kynningu Bjarna kom fram að heildarfjárhæð barnabóta yrði fimm milljörðum krónum hærri en í óbreyttu kerfi á næstu tveimur árum eftir að breytingin tekur gildi.
Á mánudag birti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra færslu á Facebook þar sem sagði meðal annars: „Við eflum barnabótakerfið um 5 milljarða á næstu tveimur árum og fjölgum fjölskyldum sem fá barnabætur um þrjú þúsund.“
Í gær gerðu Vinstri græn, flokkur forsætisráðherrans, sér mat úr þessum áformum á samfélagsmiðlum. Í færslum á Facebook og Instagram sagði að flokkurinn væri að „efla barnabótakerfið um 5 milljarða á næstu tveimur árum.“
Töldu með þrjá milljarða sem fjárheimild var þegar fyrir
Í gærkvöldi var birt minnisblað úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu á vef Alþingis sem hafði verið sent til efnahags- og viðskiptanefndar sama dag. Þar birtist önnur mynd af barnabótakerfi næstu tveggja ára en í kynningum ráðherra, færslum þeirra á samfélagsmiðlum og auglýsingum Vinstri grænna.
En hvernig var fimm milljarða króna talan þá fundin? Í fjárheimildum áranna 2023, 2024 og 2025 voru 13,9 milljarðar króna ætlaðir í barnabætur á ári. Fyrir lá að sú upphæð myndi ekki geta gengið út að öllu leyti á næsta ári vegna launahækkana í ný undirrituðum kjarasamningum ef skerðingarmörkum yrði haldið óbreyttum, heldur einungis 10,9 milljörðum króna. Með því að telja með þrjá milljarða króna á næsta ári sem annars hefðu verið skertir af fjölskyldum fær ríkisstjórnin út fimm milljarða króna innspýtingu.
Í áætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að barnabætur muni ná til 2.900 fjölskyldna sem myndu ekki fá þær í núverandi kerfi. Þar er, að minnsta kosti að góðum hluta, að ræða fjölskyldur sem hefðu verið áfram inni í núverandi kerfi ef skerðingar vegna launa og verðlags hefðu verið uppfærðar miðað við aðstæður í efnahagslífinu.
Ásakaði forsætisráðherra um að vera óheiðarlega
Þegar þessi staða varð ljós í gær kom hún til umræðu á þingi. Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, steig í pontu undir liðnum störf þingsins og sagði að forsætisráðherra hefði verið „að villa um fyrir Alþingi hér í þessum ræðustól í gær þegar hún fjallaði um umfang þeirra auknu fjárheimild til barnabóta sem ríkisstjórnin leggur til og bar saman við tillögur stjórnarandstöðunnar. Í gær áttu barnabætur að hækka um fimm milljarða en nú liggja breytingartillögur ríkisstjórnarinnar fyrir. Þar er gert ráð fyrir að barnabætur hækki aðeins um 600 milljónir á gildistíma kjarasamningsins nýja og að þær hækki um rúmlega tvo milljarða [...] Þetta er ótrúlega óheiðarlegt. Ég er bara hálf miður mín yfir því að hvers konar stjórnmálamanni hæstvirtur forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, er orðin, að óheiðarleikinn sé svona, að svona sé gengið fram gagnvart þjóðþinginu í landinu. Ég fordæmi það.“
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, tók í svipaðan streng og sagði að það væri „einfaldlega verið að blekkja okkur þegar forsætisráðherra segir: Það verða settir fimm milljarðar í barnabætur á næstu tveimur árum.“
Efling birti í gær viðbrögð við aðgerðarpakka stjórnvalda á heimasíðu sinni þar sem stéttarfélagið segir barnabætur rýrna verulega að verðgildi og að skerðingar þeirra verði auknar hjá hinum tekjulægstu í nýja kerfinu sem Bjarni kynnti. Hækkun barnabóta dugi ekki til að halda verðgildi þeirra eins og þær voru við undirritun lífskjarasamningsins árið 2019. Þeir sem muni fá hækkun barnabóta í nýja kerfinu séu einkum lægri millitekjuhópar, en sú hækkun dugi þó í fæstum tilvikum til að verðbæta barnabæturnar að fullu frá 2019. „Flestir munu fá lækkun á kaupmætti barnabótanna. Verðbólga á næsta ári mun rýra boðaða hækkun enn frekar. Að kynna þetta sem kjarabætandi framlag til kjarasamninga fyrir lágtekjufólk er því blekkingarbrella.“