Verðbólguhorfur eru „nokkuð góðar“ til skamms tíma um þessar mundir og ekki að sjá miklar hækkanir í kortunum á næstunni. Þetta segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka um verðbólguhorfur, en verðbólga mælist nú 1,8 prósent á ársgrundvelli. Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5 prósent.
Sé húsnæðisliðurinn tekinn úr verðbólgunni mælist verðbólga mun minni, eða 0,3 prósent. Hækkun fasteignaverðs hefur haldið lífi í verðbólgunni að undanförnu, en nýjustu spár gera ráð fyrir að fasteignaverð hækki um 8,1 prósent á þessu ári.
Hækkun húsnæðisverðs var nokkuð umfram spár en húsnæðisverð um land allt hækkaði um 1,2 prósent í september. Húsnæðisverð hefur því hækkað um 7,7 prósent frá áramótum. Einnig hækkaði greidd húsaleiga og hafði 0,03 prósent áhrif til hækkunar á verðbólgunni.