Vísitala kaupmáttar hefur aldrei hækkað jafn mikið og hún gerði frá miðju ári 2014 og til júlíloka 2015. Kaupmáttur jókst um 5,9 prósent á tímabilinu. Seðlabankinn áætlar að kaupmáttur ráðstöfunartekna hækki um 7,6 prósent í ár, sem er því hæsta sem hefur sést.
Aukning á kaupmætti og bætt staða á vinnumarkaði hefur leitt við vaxtar á einkaneyslu, sem búist er við að aukist um 4,2 prósent í ár. Gögn Seðlabankans sýna þó að staða einstaklinga sem búa í eigin húsnæði hafi batnað meira en þeirra sem eru á leigumarkaðnum (þ.e. leigja eða eru í félagslegri leigu). "Hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði lækkar eftir því sem tekjur lækka og hefur batinn því verið minni hjá þeim tekjulægri."
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands sem birt var á föstudag.
Hækkandi íbúðaverð skiptir miklu
Þar segir að hagur heimila hafi vænkast umtalsvert á árinu 2014 og það sem af er þessu ári. Gögn sem byggjast á efnahagsreikningum heimilanna sýna að nettó eignastaða er góð og skuldsetning með minnsta móti. "Nánast allir hagvísar sem skipta máli fyrir stöðu heimila hafa þróast með jákvæðum hætti síðustu misseri."
Stór ástæða fyrir bættri stöðu er hækkandi íbúðaverð. Á höfuðborgarsvæðinu var íbúðaverð t.d. 8,1 prósent hærra í ágúst en það var ári áður og velta á fasteignamarkaði hefur aukist jafnt og þétt. Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2015 var hún 75 milljarðar króna, eða þrefalt meiri en á sama tíma 2010 að raunvirði og svipuð og á þriðja fjórðungi 2004 þegar þensla á fasteignamarkaði var hafin.
Mesta árlega lækkun skulda heimilanna frá hruni
Skuldir heimila voru um 88 prósent af landsframleiðslu í júní og hafa lækkað um tólfprósentustig á einu ári. Að raunvirði hafa skuldir heimila lækkað um 4,6 prósent á sama tímabili og um 4 prósent sé miðað við fyrri hluta árs 2015. Um er að ræða mestu árlegu lækkun á hlutfallinu frá fjármálaáfallinu og hafa skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu ekki verið lægri síðan um síðustu aldamót.
Í Fjármálastöðugleikaritinu segir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa lækkað höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og bætt skuldastöðu heimilanna. Þær eru þó ekki ráðandi í skuldalækkunarferli heimila landsins, sem staðið hefur yfir sleitulaustfrá því snemma árs 2009. "Áætla má að skuldir heimila hafi lækkað um 60 ma.kr., bæði vegna beinnar niðurfærslu og vegna heimildar til nýtingar séreignarlífeyrissparnaðar. Sé horft fram hjá þessum aðgerðum hefðu skuldir heimila í hlutfalli við landsframleiðslu lækkað um 9 prósentustig í stað 12. Skuldalækkun heimila sem hófst snemma árs 2009 er því enn í góðum gangi".
Veðsetningarhlutfall lækkar hratt
Veðsetningarhlutfall heimila hefur lækkað mjög hratt frá árslokum 2010. Á þeim tíma hefur það lækkað um samtals 15,5 prósentustig og var 40,9 prósent í lok júní. Það hafði þá lækkað um fimm prósentustig á einu ári. Í ritinu segir að "lækkunin hefur aldrei verið jafn mikil á einu ári og má segja að í sögulegu samhengi sé hlutfallið með lægsta móti. Veðsetningarhlutfallið var nokkuð stöðugt í kringum 45 prósent árin 1998-2003. Hlutfallið lækkaði frá árslokum 2003 til ársloka 2005 eftir að bankarnir byrjuðu að bjóða íbúðalán, en í fyrstu hækkaði íbúðaverð meira en skuldsetningin.[...]Í sögulegu ljósi er því veðrými þó nokkurt, sérstaklega þegar haft er í huga að markaðsaðilar gera ráð fyrir áframhaldandi hækkun íbúðaverðs auk þess sem hluti niðurfærslu stjórnvalda á verðtryggðum skuldum heimilanna á eftir að koma fram".