Hrunkynslóðin: Pönkið lifir í listinni

sens1.jpg
Auglýsing

Ein listakonan rekur gallerí í kjallaranum hjá ömmu sinni. Önnur kemur frá Ísafirði og gerði allt vitlaust nýlega með meintri klámsýningu sem hún stýrði í Ráðhúsi Reykjavíkur. Sú þriðja semur tónlist og gjörninga undir nafninu Byssukisi. Strákurinn í hópnum er á leið til Siglufjarðar til að taka þátt í myndlistarsýningu „úr öðrum heimi“. Öll eru þau sammála um að pönkið sé aftur komið í listaheiminn á Íslandi og lifi þar góðu lífi, allavega á meðal yngra fólksins.

Öll eiga þau verk á sýningunni Kynleikar, þeirri sem talin var vera klám þegar hún var sett upp í matsal Ráðhússins. Og öll tengjast þau galleríinu Ekkisens sem var stofnað fyrir rúmlega ári síðan og er til húsa ofan í kjallara á gömlu bárujárnshúsi á Bergstaðastræti og hefur hýst fjöldan allan af listaverkum ungra listamanna. Þessi nýja kynslóð listamanna er beinskeyttari í pólitískum skírskotum í verkum sínum en sést hefur undanfarið og það hlýtur að endurspegla ástandið í samfélaginu og stjórnmálunum. Þetta virðist vera einkennandi meðal hópsins en öll hefja þau feril sinn eftir hrun.

Blaðamaður Kjarnans ræddi við fjórmenningana í vikunni. Sú sem rekur galleríið er Freyja Eilíf, tæplega þrítugt hörkutól sem undanfarið hefur líka sett upp hústökusýningar í litlu húsi í eigu Seðlabankans við Bergstaðastrætið. Hún vinnur nú að bókverkinu „Blóðrúnk: fimmauralýðveldið“. Sú sem kemur frá Ísafirði er hin 25 ára gamla valkyrja Heiðrún Gréta Viktorsdóttir. Eins og Freyja er hún útskrifuð frá myndlistardeild Listaháskólans. Hún stóð að sýningunni Kynleikar, ásamt Sigríði Þóru Óðinsdóttur, í mötuneyti Ráðhússins. Þessi sýning hafði áður verið sett upp í Ekkisens á Menningarnótt en vakti ekki athygli fyrr en hún fór fyrir brjóstið á „sómakæru“ fólki í mötuneytinu. Sem stendur er sýningin til húsa í Tjarnarbíó þar sem viðtalið var tekið.

Ljóshærður Byssukisi


Sú sem gengur undir nafninu Byssukisi er hin ljóshærða 26 ára gamla Guðrún Heiður Ísaksdóttir. Hún er einnig útskrifuð úr myndlistardeild Listaháskólans. Með listsköpun sinni vinnur hún sem tæknimaður á Listasafni Reykjavíkur og sem plötusnúður. Hún er núna að vinna að listsýningu sem sett verður upp í næsta mánuði. Strákurinn í hópnum er hinn myndarlega skeggjaði 24 ára gamli Anton Logi Ólafsson. Hann á það sameiginlegt með stúlkunum að vera útskrifaður úr myndlistardeild Listaháskólans. Framundan hjá honum er þátttaka í hópsýningunni „Dóbía úr öðrum heimi“ í næsta mánuði á Siglufirði. Hann stefnir einnig á að opna sýningu með landslagsmyndum og er að vinna að útgáfu á myndasögu í rólegheitum.

Auglýsing

Auk þeirra situr Jón Proppé listfræðingur með hópnum í barokksófasettinu í Tjarnarbíó og leggur til visku sína í umræðurnar.

Viðbrögðin komu ekki á óvart


Umræðurnar verða strax fjörugar og snúast fyrst um sýninguna Kynleikar sem nýlega var flutt yfir í Tjarnarbíó. Heiðrún segir að viðbrögðin við sýningunni hafi ekki komið sér á óvart. „En ég átti alls ekki von á að þetta yrði svona stórt mál,“ segir Heiðrún. „Umræðan varð að mínu mati á engan hátt uppbyggjandi og einkenndist mikið af sleggjudómum.“

Freyja Elíf og hin eru sammála þessu mati og benda á að í einhverjum mæli hafi fjölmiðlar notað sýninguna til að búa til svokölluð „clickbait“, það er til þess að auka umferðina um vefsíður sínar. Guðrún bendir á að þegar sýningin hafi fyrst verið sett upp í Ekkisens á Menningarnótt hafi hún ekki vakið neitt umtal utan grasrótarinnar og Anton Logi bætir við að kannski hafi viðbrögðin orðið svona hörð þar sem inntak sýningarinnar sé í raun pólitískt. Heiðrún tekur undir þetta og segir að þær Sigríður Þóra hafi viljað koma ákveðnum feminískum sjónarmiðum á framfæri með sýningunni.

„Vefmiðlar birtu hverja grein á fætur annarri sem innihéldu persónulegar aðdróttanir um klúðurslegt innihald sýningarinnar eftir höfunda sem höfðu ekki einu sinni séð sýninguna,“ segir Freyja. „Þessir greinahöfundar sem áttu hlut að máli voru því engu skárri en virkir og froðufellandi í athugasemdum. Sem betur fer heyrðust málefnalegri raddir þegar lengra var liðið frá uppþotinu og mikilvægum spurningum velt upp, eins og hvers vegna feminískir viðburðir eru iðulega „dissaðir í drasl“ eins og einhver komst að orði.“

Frá sýningu í Ekkisens. Listin tekur á sig ýmsar myndir.

Aftur til fortíðar


Ungir listamenn eins og fjórmenningarnir eiga ekki auðveldan aðgang að galleríum í Reykjavík þessa dagana. Jón Proppé gerir þetta að umtalsefni og segir að Ekkisens sé nánast eina galleríið í 101 Reykjavík sem rekið er af listamönnunum sjálfum. „Saga listsköpunar á Íslandi hefur meira og minna verið því marki brennd að menn hafi ekki átt greiðan aðgang að sýningarrýmum eða galleríum til þess að kynna verk sín,“ segir Jón. „Og það getur verið mjög kostnaðarsamt fyrir listamenn að leigja sér rými eða aðgang að galleríum.“

Freyja Eilíf tekur undir þetta og segir að Ekkisens sé mjög lítið gallerí og hið takmarkaða pláss setji starfseminni ákveðnar skorður. „Við erum þess vegna ætíð að leita að plássi til að setja upp sýningar,“ segir Freyja. „Yfirleitt er það húsnæði sem er í boði tímabundið. Sem dæmi er þetta litla hús á sömu lóð og Ekkisens þar sem við höfum sett upp hústökusýningar. Þar að auki erum við að íhuga pláss á Tryggvagötunni sem stendur til boða og býður upp á mun meira gólfpláss og þar af leiðandi stærri sýningar.  Það liggur fyrir að þessu húsnæði verður lokað innan skamms til að rýma fyrir gistihúsi eða lundabúð. Við reynum hinsvegar að grípa gæsina meðan hún gefst. Við erum því að velta þessu fyrir okkur þótt um tímabundna aðstöðu sé að ræða.“

Pönkið lifir


Þegar kemur að spurningum um listsköpun þessa hóps og hvert sé markmið hennar segir Guðrún Heiður að öðrum þræði sé þetta pönk. Anton Logi tekur undir þau orð og segir að pönkið lifi í listaheimi þeirra sem eru af yngri kynslóð listamanna hér í borginni.

Jón Proppé er þessu sammála og segir að það að setja upp listasýningar í auðu húsi sem sé í eigu Seðlabankans sé ekkert annað en hreint pönk. „Við erum nú að sjá verk fyrstu listamannanna sem hefja feril sinn eftir hrun,“ segir Jón. „Það er ekkert nýtt að ungir listamenn þurfi að búa til sinn eigin vettvang og þurfi að hafa allar klær úti til koma list sinni á framfæri. Frá því að íslenskir myndlistamenn reistu Listamannaskálann fyrir eigin reikning árið 1942 hefur hver ný kynslóð þurft að fara sömu leið. Vissulega hafa söfnin eflst og umhverfið er allt annað en það var fyrir nokkrum áratugum en það verður alltaf þörf fyrir vettvang þar sem grasrótin fær að dafna og ungir listamenn geta sjálfir ráðið ferðinni.“

Jón hefur kennt mikið og unnið með ungum listamönnum undanfarin mörg ár: „Ég held að framtíðin sé björt og starfsemi Ekkisens-hópsins er sönnun þess.“

2.Jón Proppé: Það er ekkert nýtt að ungir listamenn þurfi að búa til sinn eigin vettvang og þurfi að hafa allar klær úti til koma list sinni á framfæri. Jón Proppé: Það er ekkert nýtt að ungir listamenn þurfi að búa til sinn eigin vettvang og þurfi að hafa allar klær úti til koma list sinni á framfæri.

Mikilvægt að ráða ferðinni


„Það segir sig sjálft að stór og mikilvægur partur af sköpunarferlinu er að ráða ferðinni. Sköpunarkrafturinn þrífst einna best þegar listamenn standa sjálfir við stjórnvölinn,“ segir Freyja Eilíf og bætir síðan við:  „Í Ekkisens gefst okkur tækifæri til að elta sköpunarkraftinn í einu og öllu. T.d. með því að taka skyndiákvarðanir og þróa verk allt fram að opnun. Það er svo margt við hinn almenna listheim sem er heftandi. Svo er það náttúrulega ekkert launungarmál að myndlist stjórnast líka af peningum og fylgir tískubylgjum eins og hver önnur neysludrottning.“

Guðrún Heiður tekur undir þetta og segir að ef listamenn fylgi viðurkenndum stefnum þá eiga þeir meiri möguleika á því að fá að vera memm á meðan þeir sem vinna með pólitískar skírskotanir og „andlist“ í listsköpun sinni eigi á hættu að vera „stigmatiseraðir“ og læstir ofan í  kjallaranum ævilangt. „Við höldum bara partí í kjallaranum,“ segir Anton Logi Ólafsson og brosir.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Einkabílaeign á Ísland er hlutfallslega sú hæsta í Evrópu.
Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?
Orkuskipti í samgöngum er eitt helsta framlag íslenskra stjórnvalda í baráttunni við loftslagshamfarir. Rafbílar eru hins vegar ekki sú töfralausn sem oft er haldið fram. Vandamálið er ekki bensíndrifnir bílar heldur bíladrifin menning.
Kjarninn 24. júlí 2021
Daði Már Kristófersson
Gölluð greinargerð um fyrningu aflaheimilda
Kjarninn 24. júlí 2021
Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar hafa sem sakir standa ekki kost á því að starfa á einkareknum stofum innan greiðsluþátttökukerfis hins opinbera fyrr en eftir tveggja ára starf í greininni.
Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar byrja að veita þjónustu án greiðsluþátttöku ríkisins
Á nokkrum sjúkraþjálfarastofum er nú hægt að bóka þjónustu nýútskrifaðra sjúkraþjálfara, en þá þarf að greiða fullt verð fyrir tímann, vegna ákvæðis í reglugerð heilbrigðisráðherra. Tveir eigendur stofa segja þetta ekki gott fyrir skjólstæðinga.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ríkisstjórnin fundaði á Egilsstöðum í dag. Mynd úr safni.
200 manna samkomutakmarkanir til 13. ágúst
Í mesta lagi 200 manns mega koma saman frá miðnætti á morgun og þar til 13. ágúst og eins metra regla verður í gildi. Barir og veitingahús þurfa að loka á miðnætti.
Kjarninn 23. júlí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent
None