Konungur hljóðfæranna þrjú hundruð ára

Um þessar mundir eru þrjú hundruð ár síðan hljóðfærið sem iðulega er nefnt konungur hljóðfæranna varð til. Slagharpan, eða píanóið, á engan eiginlegan ,,afmælisdag” en um aldamótin 1700 er þessa hljóðfæris fyrst getið.

Píanó
Auglýsing

Árið 1655 fæddist í Padova á Ítalíu drengur sem síðar var skírður Bartolomeo, fjölskyldunafnið var Christofori. Fátt er vitað um æsku piltsins en talið vitað að hann hafi numið fiðlusmíði á verkstæði Stradivari fjölskyldunnar í bænum Cremona á Norður-Ítalíu. Ítalskur sagnfræðingur telur sig hafa fundið sannanir fyrir því að Antoni Stradivari hafi verið leiðbeinandi Christofori. Antoni Stradivari þessi er þekktasti fiðlusmiður sem uppi hefur verið en hann smíðaði jafnframt annars konar strengjahljóðfæri.

Prinsinn í Flórens

Bartolomeo Christofori var árið 1688 ráðinn til Ferdinando de Medici í Flórens. Ferdinando þessi var prins, sonur hertogans í Toscana, eins ríkasta manns Evrópu á þessum tíma. Um tildrög þessarar ráðningar er ekkert vitað en Ferdinando prins var mikill áhugamaður um tónlist og kannski hefur Stradivari bent á Christofori þegar prinsinn leitaði að starfsmanni. Prinsinn lék sjálfur á hljóðfæri, átti fjöldann allan af vönduðum hljóðfærum og tónlistarmenn voru tíðir gestir í höll hans í Flórens. Meðal hljóðfæranna í eigu prinsins voru 37 sembalar og til eru gögn sem sýna að Christofori annaðist ýmis konar viðhald og viðgerðir á þeim.

Vildi eitthvað nýtt

Ferdinando prins var eins og áður sagði mikill áhugamaður um tónlist og hljóðfæri. Hann mun hafa sagt Christofori að hann gæti bæði eytt tíma og peningum í það sem nú myndi vera kallað þróunarvinna og ku hafa nefnt sembalinn sérstaklega. Christofori lét ekki segja sér þetta tvisvar og eyddi miklum tíma í alls kyns tilraunir og prinsinn fylgdist áhugasamur með. Christofori þótti hljómurinn í sembalnum  of einhæfur og einsetti sér að bæta úr því. Eftir margra ára vinnu hafði honum tekist að smíða hljóðfæri, sem í upphafi dró nafn sitt af því að á það var bæði hægt að spila veikt og sterkt, Gravicembalo col piano e forte. Christofori hafði semsé tekist það sem hann ætlaði sér. Ferdinando prins var himinlifandi og hvatti Christofori til að halda áfram tilraunum sínum. Prinsinn lést fimmtugur að aldri árið 1713 en þremur árum síðar var gerð skrá yfir þau hljóðfæri sem til voru í höll fjölskyldunnar í Flórens og á listanum var semball með hömrum, semsé píanó. Til eru þrjú píanó sem með vissu er vitað að Christofori smíðaði á árunum 1720 – 1726. Þau líkjast sembal að ytra útliti, strengjaharpan (úr tré) liggjandi, eins og í flygli. Hér verður ekki fjallað um hina tæknilegu hlið og uppbyggingu píanósins en í mjög einföldu máli má segja að það er hamar með filtklæddum haus á tréstilk sem slær í strengina en á sembal er það sérstakur búnaður sem ,,kroppar” í strengina.

Auglýsing

Vakti takmarkaða athygli í upphafi

Þótt píanóið byði uppá margfalt fjölbreyttari túlkunarmöguleika en semballinn vakti það ekki sérstaka athygli í upphafi. Sembalinn þekkti fólk enda átti hann sér langa hefð. Christofori á að hafa látið svo um mælt árið 1720 að  það væri aðeins tímaspursmál hvenær heimurinn myndi uppgötva píanóið. Það reyndist rétt, árið 1725 birtist í þýsku tímariti löng grein um Christofori og píanóið, grein þess vakti mikla athygli,en Christofori lést sex árum síðar, 1731.

Píanóið slær í gegn

Margir hljóðfærasmiðir hófu fyrir og um miðja átjándu öldina að smíða píanó. Vinsældir hljóðfærisins jukust eins og Christofori hafði spáð. Meðal þeirra sem snemma komu auga á möguleika píanósins var fyrirtækið Broadwood & Sons í Lundúnum sem síðar sendi bæði Ludwig van Beethoven og Josep Haydn píanó að gjöf.   

Til að gera langa sögu stutta

Þótt tækninni hafi fleygt fram frá dögum Christofori er grundvallaruppbygging hljóðfærisins sú sama.  Árið 1825 fékk bandarískt fyrirtæki einkaleyfi á heilsteyptum ramma (hörpunni) úr járni. Þannig varð harpan margfalt sterkari en áður og hljóðfærið að sama skapi hljómsterkara. Franskt fyrirtæki hóf smíði upprétts píanós (þar sem strengir liggja lóðrétt) snemma á nítjándu öld. Slík hljóðfæri eru minni og ódýrari og einsog franska fyrirtækið sagði í auglýsingum ,,henta því betur til heimilisnota”.

Á síðustu áratugum hafa komið á markaðinn margs konar rafmagnspíanó sem, að minnsta kosti sum hver, kosta einungis brot af verði hinna hefðbundnu píanóa. Hljómgæðin eru ekki sambærileg.

Þeir fjórir stóru

Píanóframleiðendur eru í dag óteljandi, um allan heim. Fjögur fyrirtæki eru þó af mörgum talin standa fremst í þeim flokki. Bösendorfer í Vín (í dag eign Yamaha í Japan) er elst þessara fjögurra, stofnað 1828. Hin þrjú, Steinway & Sons í Þýsklandi og Bandaríkjunum, Bechstein og Bluthner í Þýskalandi (Berlín og Leipzig) voru öll stofnuð árið 1853.

Af hverju er píanóið svona vinsælt hljóðfæri?

Þessari spurningu er kannski fljótsvarað. Píanóið er geysilega fjölhæft hljóðfæri enda til ógrynni af tónverkum sem samin hafa verið fyrir það. Hægt er að leika á það veikt og sterkt, dramatískt og rómantískt, það sómir sér jafn vel eitt og sér og í hópi annarra hljóðfæra, það fyllir salinn og nýtur sín líka vel sem lágvær bakgrunnur þegar svo ber undir. Sem meðleikshljóðfæri söngvara er það í sérflokki. Þegar öllu er á botninn hvolft er ekki að undra að píanóið eða slagharpan sé iðulega kallað konungur hljóðfæranna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér
Kerfið brást Helgu Björgu harðlega eftir að hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa Miðflokksins í um tvö ár án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Málið hefur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu hennar.
Kjarninn 18. júní 2021
Horft frá Nauthólsvík yfir á Kársnes og að Hamraborg, þar sem Kópavogsbær stefnir á uppbyggingu þéttrar byggðar meðfram væntum borgarlínuleiðum.
Telur kjörnum fulltrúum skylt að rýna í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi vill rýna betur í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu, sem lagðar hafa verið fram að undanförnu, svo vilji sveitarstjórna sé skýr í málinu. Einnig viðrar hún sérstakar áhyggjur af rekstrarkostnaði.
Kjarninn 18. júní 2021
N1 er vinsælasti viðkomustaður þeirra sem hafa notað nýju ferðagjöf stjórnvalda.
Bensínstöðvar, baðlón og skyndibitastaðir vinsælust hjá notendum nýrrar ferðagjafar
Yfir 10 þúsund manns hafa nýtt nýja ferðagjöf stjórnvalda og um 50 milljónir króna verið greiddar út. Kunnugleg nöfn raða sér í efstu sæti þeirra fyrirtækja sem tekið hafa við mestu en baðlónið Sky Lagoon kemur nýtt inn á lista og tyllir sér í annað sæti.
Kjarninn 17. júní 2021
Guðjón Sigurðsson
Alþjóðlegur MND dagur 20. júní 2021
Kjarninn 17. júní 2021
Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Fyrrverandi seðlabankastjóri fékk fálkaorðuna
Forseti Íslands sæmdi fjórtán manns fálkaorðunni á Bessastöðum í dag.
Kjarninn 17. júní 2021
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.
Vilja endurvekja sjálfstæðisbaráttuna
„Eins og fyrri kynslóðum tókst að umbreyta íslensku samfélagi með sjálfstæðisbaráttu almennings þá mun okkur takast það einnig. Þeim tókst það og okkur mun líka takast það.“ Sósíalistaflokkurinn sendi frá sér tilkynningu í tilefni af 17. júní.
Kjarninn 17. júní 2021
Ólafur Ólafsson
Mannréttindadómstóll Evrópu vísar kæru Ólafs Ólafssonar frá
MDE hafnaði í morgun með afgerandi hætti að Rannsóknarnefnd Alþingis hefði brotið gegn rétti Ólafs Ólafssonar til réttlátar málsmeðferðar.
Kjarninn 17. júní 2021
Dánartíðni var hærri í öllum öðrum EES-löndum, ef miðað er við sögulegt meðaltal.
Umframdánartíðnin minnst á Íslandi
Minnsti munur var á mánaðarlegri dánartíðni og sögulegu meðaltali hennar hér á landi af löndum EES.
Kjarninn 17. júní 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None