Gáfaðri útgáfan af Trump

Steve Bannon er einn þeirra sem telst vera pólitískur sigurvegari í Bandaríkjunum á árinu, þrátt fyrir öfgafullar og umdeildar skoðanir. Kristinn Haukur Guðnason kynnti sér sögu hans.

Kristinn Haukur Guðnason
Bannon
Auglýsing

Skömmu eftir bandarísku forsetakosningarnar þann 8. nóvember útnefndi Donald Trump kosningastjóra sinn, Steve Bannon, sem æðsta ráðgjafa sinn í verðandi stjórn. Ljóst er að staða Trump er sterk með meirihluta í báðum þingdeildum og útnefningu nýs hæstaréttardómara með úrslitaatkvæði. repúblíkanaelítan sem barði á honum fyrir kosningarnar þegir nú og hlýðir. Að vera hægri hönd manns með slíka stöðu er því ákaflega valdamikið embætti. En hver er Steve Bannon og af hverju logar internetið vegna ráðningar hans?

Heillaðist af Reagan

Stephen Kevin Bannon er fæddur 27. nóvember árið 1953 í borginni Norfolk í Virginíuríki. Norfolk er meðalstór borg á austurströndinni sem er aðallega þekkt sem flotastöð bandaríska sjóhersins. Hann var þriðja barn af fimm, hjónanna Martin og Doris Bannon. Þetta var týpísk írsk-amerísk verkamannafjölskylda. Faðir hans vann hjá símafyrirtæki og móðir hans var heimavinnandi. Þau voru kaþólikkar, demókratar og virk í verkalýðshreyfingunni. Þau umgengust gyðinga og svart fólk sem var nokkuð óvanalegt á sjötta áratugnum í Suðurríkjunum.

En fjölskyldan var engu að síður mjög íhaldssöm. Stephen og bræður hans tveir voru sendir í kaþólskan herskóla þar sem þeir lærðu aga og virðingu fyrir hefðbundnum gildum. Á þessum tíma mótaðist heimsýn hans og hann hafði mjög sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálunum og lenti jafnvel í slagsmálum vegna þeirra. Eftir menntaskóla lá leiðin í Virginia Tech háskólann og þar tók hann í fyrsta skipti virkan þátt í stjórnmálum sem formaður stúdentaráðs árið 1975. Eftir háskóla gekk hann í sjóherinn, þar sem hann þjónaði á orrustuskipinu USS Paul F. Foster á Kyrrahafi og í Persaflóa en tók um leið masters gráðu í alþjóðasamskiptum við Georgetown háskóla. Árið 1980 var örlagavaldur í lífi Bannon þegar Ronald Reagan sigraði sitjandi forsetann Jimmy Carter í kosningum. Líkt og margir af hans kynslóð hreifst Bannon með Reagan-bylgjunni og þeirri nýju hægristefnu sem boðuð var. Margir þrýstu á Bannon að fara út í stjórnmál á þessum tíma en hugur hans var annars staðar. Hann tók MBA gráðu við Harvard háskóla og fékk í kjölfarið stöðu hjá fjárfestingarbankanum Goldman Sachs.

Auglýsing

Bankarekstur og Hollywood

Fátt virtist benda til að Bannon myndi hafa nokkur afskipti af stjórnmálum á þessum tíma. Hann vann hörðum höndum við að græða peninga hjá Goldman Sachs til ársins 1990 þegar hann og nokkrir samstarfsmenn hans stofnuðu eigin banka, Bannon & Co. Það var fjárfestingarbanki sem sérhæfði sig í fjölmiðlum og menningarstofnunum. Þeir keyptu upp lagera af kvikmyndum og voru milligöngumenn í samrunum ýmissa fyrirtækja í skemmtanaiðnaðinum eins og t.d. MGM, Turner og Polygram

Bankinn stóð einnig að framleiðslu efnis og ber þar helst að nefna hina geysivinsælu gamanþætti Seinfeld. Samfara bankarekstrinum stýrði Bannon rannsóknarsetrinu Biosphere 2 í Phoenix á árunum 1993 til 1995. Þar var aðallega fengist við rannsóknir á sviði geimvísinda og loftslagsmála. Bæði skemmtanaiðnaðurinn og vísindasamfélagið eru þekkt fyrir að innihalda mikið af frjálslyndu fólki og vinstrimönnum og Bannon átti ekki í vandræðum með að umgangast þá. Klæðnaður hans og fas virtist einnig benda til þess að hann félli vel inn í þann hóp. Hann klæddist litríkum skyrtum og sandölum og talsmáti hans var ávallt alþýðlegur og laus við allt snobb. En hann gat líka verið grimmur og beinlínis andstyggilegur við þá sem honum líkaði illa við. Bannon er þrígiftur og þrískilinn og önnur eiginkona hans kærði hann fyrir heimilisofbeldi árið 1996. 

Stjórnmálin toguðu alltaf í hann og árið 1998 seldi hann hlut sinn í Bannon & Co. og fór þess í stað að framleiða og leikstýra kvikmyndum. Sumar myndirnar voru leiknar Hollywood myndir á borð við Titus og Sweetwater en þorrinn af þeim voru heimildarmyndir sem drógu taum hægrisins. Þetta voru upphafningarmyndir um repúblíkana á borð við Ronald Reagan og Söru Palin og svo mjög gagnrýnar myndir um innflytjendamál og bandaríska ríkisbáknið. Það skipti ekki máli þó að George W. Bush væri í hvíta húsinu því að Bannon leit á Bush sem hluta af þessari elítu og hluta af vandamálinu. Bannon var yst á jaðrinum og honum vantaði útrás fyrir gremju sína. Þá útrás fann hann árið 2004 þegar hann kynntist ungum manni að nafni Andrew Breitbart.

Breitbart hinn alræmdi jaðarmiðill

Andrew Breitbart var mjög íhaldssamur fjölmiðlamaður sem hafði m.a. skrifað fyrir Washington Times og komið að stofnun hins geysivinsæla vefs Huffington Post. En Breitbart vildi koma á fót sínu eigin vefriti sem yrði yst á jaðrinum og því stofnaði hann Breitbart News árið 2007. Steve Bannon sá þarna tækifæri og gerðist stofnmeðlimur. Breitbart News var beinlínis stofnað til höfuðs hinnar pólitísku elítu og þó að gildum Repúblíkanaflokksins væri hampað þá fengu margir innmúraðir yfir sig vænar gusur á síðunni. Stofnun síðunnar fór saman við uppgang hinnar svokölluðu Teboðshreyfingar sem óx mikið eftir valdatöku Barack Obama árið 2008. Pópúlísk alda var í uppsiglingu og umsvif Breitbart jukust jafnt og þétt. Fréttir á Breitbart voru gagnrýnar á stjórn Obama, ríkisbáknið, elítuna, öryggismál, hefðbundna fjölmiðla og Hollywood maskínuna. Einnig voru þær mjög litaðar af kynþátta og útlendingahatri, kvenfyrirlitningu og fordómum í garð samkynhneigðra. Oftast nær voru fordómarnir sagðir með svokölluðum hundablístrum, þ.e. með dylgjum og ósögðum athugasemdum sem lesendur gátu áttað sig á. Í athugasemdakerfi vefsins sást það svo best hvers konar fólk las vefinn og þar voru engar hundablístrur. 

Þá voru fréttamenn vefsins óvægnir í stuðningi sínum við Ísraelsríki sem sást best í því að vefurinn hafði útibú í Jerúsalem. Breitbart, sem sjálfur var gyðingur lést úr hjartasjúkdómi einungis 43 ára að aldri árið 2012. Þá steig Bannon fram og tók við stjórn vefsins. Við valdatöku Bannon jukust fordómar í garð minnihlutahópa og kvenna til muna á vefnum. Þar sem Breitbart sjálfs naut ekki við voru gyðingar teknir inn í hóp þeirra sem gagnrýni vefsins beindist að, enda eru gyðingar fyrirferðarmiklir í stjórnmála, fjármála og Hollywood elítunni. Kynþáttahatrið var nú orðið stækt á síðunni og í athugasemdakerfinu og beindist það ekki síður gegn gyðingum. Farið var að tala um Breitbart sem málsvara hinnar svokölluðu alt-right hreyfingar. Sú hreyfing varð til á spjallrásum og athugasemdakerfum í afkimum internetsins og einkennist af kvenfyrirlitningu og hatri í garð minnihlutahópa. Bannon fullyrti sjálfur að Breitbart væri vettvangur hreyfingarinnar.

Hann færði út kvíarnar og opnaði útibú í Texas og í Lundúnum árið 2014. Við opnun útibúsins í Lundúnum opnuðust augu evrópsku pópúlistaflokkana fyrir síðunni og stjórnmálamenn á borð við Nigel Farage úr UKIP og Marine Le Pen í frönsku Þjóðfylkingunni sýndu henni stuðning sinn. Með auknum umsvifum síðunnar varð boðskapurinn smám saman “normalíseraður” líkt og hægrimenn á borð við Rush Limbaugh höfðu áður gert í útvarpi. Vefurinn var engu að síður ekki mjög stór. Árið 2014 hafði Breitbart News að meðaltali um 8 milljón lesendur í Bandaríkjunum.

Inn stígur Trump

Donald Trump tilkynnti framboð sitt til forseta þann 16. júní árið 2015 og fljótlega fór öll fjölmiðlaumfjöllun að snúast um hann. Fram að því höfðu Bannon og Breitbart stutt dyggilega við bakið á Ted Cruz, frambjóðanda Teboðshreyfingarinnar. Cruz hafði tilkynnt framboð sitt snemma og fengið drottningarviðtöl á síðunni en aðrir frambjóðendur repúblíkana á borð við Jeb Bush og Marco Rubio fengu töluverða gagnrýni. Trump var þó snemma sýndur í nokkuð jákvæðu ljósi á síðunni og það reyndist Bannon og félögum vel. Heimsóknir á síðuna tvöfölduðust á einungis hálfu ári. 

Cruz féll smám saman í ónáð hjá Bannon, sérstaklega eftir að hann samþykkti fríverslunarsamning að undirlagi þingforsetans Paul Ryan, sem var svarinn óvinur Bannon. Haustið 2015 var óljóst hvorn frambjóðandann Breitbart studdi en í janúar 2016 var Cruz alfarið sparkað fyrir Trump. Trump sagði Cruz vera óhæfan til að gegna embættinu sökum þess að hann var fæddur í Kanada og fréttamenn Breitbart tóku undir af fullri hörku

Bannon varð klappstýra Trump og þegar ljóst var að hinn síðarnefndi yrði frambjóðandi Repúblíkanaflokksins um sumarið 2016 var lesendafjöldi Breitbart um 18 milljónir. Á þessum tíma gekk Trump allt í haginn og hann skoraði hátt í skoðanakönnunum. En síðsumars fór fylgi hans að dala, að hluta til vegna framboðsstjóra hans, Paul Manafort. Upp komst um grunsamleg tengsl hans við Viktor Yanukovych fyrrum forseta Úkraínu og Manafort sagði skilið við framboðið í ágúst. Í stað hans valdi Trump Kellyanne Conway og Steve Bannon til að stýra framboðinu. Margir töldu að hinum reynda Manafort, sem hafði unnið að forsetaframboðum í 40 ár, hefði mistekist að halda aftur af hinum yfirlýsingaglaða Trump. Með ráðningu Bannon var öllum ljóst að gefið yrði í frekar en hitt. Einn af þeim sem fagnaði ráðningu Bannon hvað ákafast var David Duke fyrrum leiðtogi Ku Klux Klan. Alt-right hreyfingin og hvítir þjóðernissinnar voru nú formlega orðin hluti af framboði Donald Trump. Bannon tók sér leyfi frá Breitbart en vefurinn hélt engu að síður áfram að styðja dyggilega við bakið á frambjóðandanum.

Skítugasta kosningabarátta sögunnar

Um haustið 2016 var fátt annað talað en bandarísku kosningabaráttuna. Trump fór upp í könnunum eftir veikindi Hillary Clinton í september og niður aftur eftir rökræður frambjóðendanna, sem voru þær sóðalegustu í sögunni, og eftir að myndband birtist af honum þar sem hann hreykti sér af kynferðisáreitni. Nú var ekki hægt að draga úr soranum. Stefna Trump og Bannon var sú að koma dyggasta stuðningsfólkinu á kjörstað og skvetta það mikilli drullu á andstæðinginn að sem flestir óháðir sætu heima. Langflestir bjuggust þó við sigri Clinton eins og nánast allar skoðanakannanir og kosningaspár gáfu til kynna. Úrslitin gætu varla hafa komið meira á óvart. Ljóst var að Trump hafði unnið kjörmannakosninguna en að Clinton hefði umtalsvert fleiri atkvæði (nálægt 3 milljónum eins og síðar kom í ljós). Til að auka á fáranleikann þá sviku 7 kjörmenn lit og kusu annað fólk sem er það mesta í sögunni (utan við látna frambjóðendur). Síðan 1872 hafa aldrei fleiri en einn kjörmaður svikið lit. Þetta er birtingarmynd af því hversu saurug kosningabaráttan var, hversu hataðir frambjóðendurnir voru og hversu vel plott Trump og Bannon gekk upp. Eftir kosningarnar var ljóst að Bannon og Conway yrðu verðlaunuð fyrir framboðsstýringuna með stöðum í hvíta húsinu. Bæði munu taka við embættum ráðgjafa og Bannon sem æðsti ráðgjafi þann 20. janúar næstkomandi.


Bannon mun móta framtíðina

Staða æðsta ráðgjafa Bandaríkjaforseta hefur verið mjög misjöfn síðan hún var sett á laggirnar í stjórnartíð Richard Nixon árið 1969. Sumir hafa verið mjög nánir forsetanum en aðrir nýttir sem nokkurs konar almannatenglar og fjölmiðlafulltrúar. Endrum og eins hefur staðan verið laus, t.d. alla stjórnartíð Jimmy Carter 1977-1981. Búist er við því að Bannon muni hafa mjög mikið að segja um stefnumótun Donald Trump í ljósi reynsluleysis hins síðarnefnda. Talið er að hann muni koma töluvert að utanríkis og varnarmálum, eflingu samskipta við Rússland Pútíns og evrópska pópúlistaflokka.

Fyrsti erlendi stjórnmálamaðurinn til að funda með Trump eftir kosninguna var einmitt Nigel Farage, lesandi Breitbart. Bannon mun væntanlega einnig leggja drög að neikvæðri afstöðu Bandaríkjanna til fríverslunarsamninga og Evrópusambandsins. Þá er búist við því að reynsla Bannon af fjölmiðlum muni nýtast Trump við að skapa og móta ímynd sína sem forseta. Gildir þá einu hvort öllum líki við hann. Bara að nógu mörgum líki við hann og nógu mörgum líki illa við andstæðinga hans.

5 umdeildar tilvitnanir Steve Bannon:

Dick Cheney. Darth Vader. Satan. Það er vald!

Konur sem ættu að stjórna landinu ættu að vera fyrir fjölskylduna, ættu að eiga eiginmenn, ættu að elska börnin sín. Ekki einhverjar lessur úr listaháskólum í Nýja Englandi.

Ótti er góður. Ótti lætur þig taka málin í eigin hendur.

Ég vill ekki að stelpurnar [dætur hans] fari í skóla með gyðingum. Þeir ala börnin sín upp sem vælandi óþekktaranga.

Ég er Lenínisti. Lenín vildi eyðileggja ríkið, og það er mitt takmark einnig.

5 umdeildar fyrirsagnir Breitbart News:

Réttindi samkynhneigðra hafa gert okkur heimskari, tími til kominn að fara aftur inn í skápinn.

Getnaðarvarnarpillan gerir konur óaðlaðandi og heimskar.

Hvort myndir þú frekar vilja að barnið þitt fengi femínisma eða krabbamein?

Gabby Giffords [þingmaður sem varð fyrir morðtilraun]: Mannlegur skjöldur byssuandstæðinga

Hífum hann upp með stolti: Suðurríkjafáninn kunngerir glæsilega arfleið

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Það er erfitt að ímynda sér að það snjói í Brasilíu en snjókoma er eflaust algengari þar en ætla mætti. Þessi mynd er tekin eftir snjókomu í Brasilíu í ágúst árið 2020
Snjór fellur í Brasilíu
Sumir íbúar í syðsta héraði Brasilíu hafa tekið snjónum fagnandi enda ekki á hverjum degi sem þar snjóar. Bændur gætu aftur á móti átt von á lakari uppskeru og verð á hrávörumörkuðum hefur hækkað í kjölfar kuldakastsins.
Kjarninn 30. júlí 2021
Landspítalinn er á hættustigi vegna kórónuveirufaraldursins.
Sjúklingur á krabbameinsdeild reyndist ekki með COVID
Sjúklingur og starfsmaður á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítalans, sem sagt var frá í gær að hefðu greinst með COVID-19 reyndust ekki smitaðir af kórónuveirunni.
Kjarninn 30. júlí 2021
Óli varð efstur í forvali VG í Norðausturkjördæmi en Bjarkey Olsen í öðru.
Óli Halldórsson hættur við að leiða lista VG í Norðausturkjördæmi
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir mun leiða lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi. Óli Halldórsson færist niður í þriðja sætið en hann stígur til hliðar úr oddvitasætinu vegna veikinda í fjölskyldunni.
Kjarninn 30. júlí 2021
Um 85 prósent Íslendinga sextán ára og eldri eru bólusett
Fjórðungur smitaðra óbólusettur
Að minnsta kosti 255 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með kórónuveiruna hér á landi á þremur vikum. Tæplega 750 smit, um 72 prósent, eru hjá fullbólusettum.
Kjarninn 30. júlí 2021
Þessir frambjóðendur skipa sjö efstu sæti Sósíalistaflokksins í Suðvesturkjördæmi.
María Pétursdóttir og Þór Saari leiða sósíalista í Suðvesturkjördæmi
María hefur starfað innan Sósíalistaflokksins í fjögur ár sem formaður Málefnastjórnar. Raðað er á lista flokksins af hópi flokksfélaga sem hefur verið slembivalinn.
Kjarninn 30. júlí 2021
Ísland og Ísrael örva bólusetta
Á Íslandi og í Ísrael er bólusetningarhlutfall með því hæsta sem fyrirfinnst á jörðu. Bæði löndin sáu smit nær þurrkast út en rísa svo í hæstu hæðir á ný. Og nú hafa þau, sama daginn, ákveðið að gefa þegar bólusettum borgurum örvunarskammt.
Kjarninn 30. júlí 2021
Stóru bankarnir þrír fækkuðu allir í starfsliði sínu á fyrstu sex mánuðum ársins.
Starfsmönnum stóru bankanna fækkaði um rúmlega 80 á fyrri helmingi árs
Í lok júní störfuðu 2.167 manns hjá stóru viðskiptabönkunum þremur, Íslandsbanka, Landsbanka og Arion banka. Samanlagður hagnaður bankanna nam 37 milljörðum á fyrstu 6 mánuðum ársins.
Kjarninn 30. júlí 2021
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None