Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir það mikið gleðiefni að sjá hversu sterkt lífeyrissjóðakerfið á Íslandi standi. „Það er ekki langt síðan íslenska lífeyrissjóðakerfið fékk fyrstu einkunn í samanburði við önnur kerfi. Það nemur nú um tvöfaldri landsframleiðslu þannig að það er ekki hægt að halda því fram að hér sé verið að tala um einhver hænuskref þegar lífeyrissjóðirnir fá á hverju ári auknar heimildir til þess að fara út vegna þess að í sjálfu sér má segja að eins og sakir standa sé hvert prósentustig eins og 2 prósent af landsframleiðslu.“
Þetta kom fram í máli ráðherrans í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar spurði Bjarna hvort hann ætlaði að taka stærri og ákveðnari skref í því að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta í erlendum eignum.
Hún orðaði það þannig að ríkisstjórnin væri að stíga „hænuskref til að auka heimildir lífeyrissjóðanna til að fjárfesta erlendis“.
„Þegar maður les álit Samkeppniseftirlitsins og fleiri sést að það er hætta á því að það veiki samkeppnisumhverfi og skapi hættu á eignabólum. Sjálfir hafa lífeyrissjóðirnir bent á að út frá hagsmunum sjóðfélaga, þeirra sem hafa greitt inn í lífeyrissjóðina, skapist talsverð hætta á bólumyndun á innlendum eignamarkaði sem getur leitt til þess að innleidd eignasöfn lífeyrissjóða verði að einhverju leyti ósjálfbær til framtíðar,“ sagði Þorgerður Katrín.
Þessu til viðbótar væri fjármagn lífeyrissjóðanna ráðandi í flestum stærstu skráðu fyrirtækjunum hér á landi. „Með öðrum orðum er kominn upp sá vandi að sömu eigendur eru að bönkunum og helstu viðskiptavinir þeirra. Í þessu er auðvitað fólgin mikil áhætta eins og lífeyrissjóðirnir meðal annars benda á.“
Benti hún á að ráðherrann hefði lagt fram mál eða drög að því að taka ætti þau skref að heimila lífeyrissjóðunum að fjárfesta í útlöndum úr helmingi upp í 68 prósent frá þessu ári til ársins 2038 og þess vegna talaði hún um hænuskref.
Þorgerður Katrín spurði því hvort Bjarni sæi möguleika á því að fara hraðar í sakirnar og þá taka líka stærri skref. „Það er verið að tala um hvort það eigi ekki að fara allt upp í 70 prósent, jafnvel 75 prósent, heimila lífeyrissjóðunum að gera það. Í fyrsta lagi spyr ég: Sér hann fram á það að taka stærri og ákveðnari skref og mörkin verði þá rýmri fyrir lífeyrissjóðina til að fjárfesta í erlendum eignum sem að þeirra mati skiptir máli til að verðgildi rýrni ekki fyrir sjóðfélaga sem þeir síðan bera ábyrgð á?“ spurði hún.
Áskorun að hafa ekki stærra hagkerfi þegar lífeyrissjóðakerfið er tvöföld landsframleiðsla
Bjarni svaraði og benti á að Þorgerður Katrín væri þarna að vísa í frumvarp sem nýlega var í samráðsgáttinni. „Við afgreiddum málið úr ríkisstjórn í gær með nokkrum breytingum eftir samráðsgátt. Það er nú í þingflokkum og verður því dreift hér á þinginu vonandi í dag eða á morgun. En já, ég get sagt sem svo að ég mun leggja það til að við tökum nokkurt tillit til fram kominna athugasemda, en við erum þó ekki að galopna fyrir erlendu heimildirnar heldur fylgja þeim ráðum sem við höfum fengið og byggjum á úttekt um þessi mál.“
Hann sagði að það væri í sjálfu sér mikið gleðiefni að sjá hversu sterkt lífeyrissjóðakerfið á Íslandi stæði.
„Það er ekki langt síðan íslenska lífeyrissjóðakerfið fékk fyrstu einkunn í samanburði við önnur kerfi. Það nemur nú um tvöfaldri landsframleiðslu þannig að það er ekki hægt að halda því fram að hér sé verið að tala um einhver hænuskref þegar lífeyrissjóðirnir fá á hverju ári auknar heimildir til þess að fara út vegna þess að í sjálfu sér má segja að eins og sakir standa sé hvert prósentustig eins og 2 prósent af landsframleiðslu. Það eru háar fjárhæðir. Og þegar við erum farin að telja breytingarnar í tugum prósenta upp í, segjum 50 prósent upp í 65 prósent, þá erum við að ræða um breytingu sem nemur 30 prósent af landsframleiðslu. Það eru nýjar heimildir til að fjárfesta í útlöndum. Það er skynsamlegt að gera og það er mjög ánægjulegt að við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu,“ sagði hann.
Bjarni sagði jafnframt að á hinn bóginn væri það rétt sem Þorgerður Katrín nefndi. „Það eru miklar áskoranir í því fyrir ekki stærra hagkerfi en okkar að hafa lífeyrissjóðakerfi sem er tvöföld landsframleiðslan. Að finna fjárfestingarkosti og finna góða ávöxtunarmöguleika er því mikil áskorun. Þess vegna meðal annars held ég að það sé mjög tímabært að stíga þessi skref.“
Fyrst og fremst til þess að verja íslensku krónuna
Þorgerður Katrín sagðist fagna því ef tekið hefði verið tillit til þessara athugasemda lífeyrissjóðanna.
„Þeir eru markvisst að benda á að það sé raunveruleg hætta, eins og þeir hafa nefnt það sjálfir, á ruðningsáhrifum og bólumyndun á innlendum eignamarkaði sem síðan geti leitt til þess, sem er náttúrulega enn alvarlegra, að innlend eignasöfn lífeyrissjóða verði að einhverju leyti ósjálfbær til framtíðar. Lífeyrissjóðirnir hljóta að benda á þetta og ég fagna því ef ríkisstjórnin ætlar að stíga eitthvað lengri skref en hænuskref. Þetta eru hænuskref eins og þetta blasir við núna. Það má kannski ekki nefna fílinn í þessari postulínsbúð en það er auðvitað íslenska krónan.
Við sjáum að fyrst og fremst er það yfirlýst ástæða fjármála- og efnahagsráðherra að fara varlega í sakirnar og það er ekkert óeðlilegt meðan við við erum með krónuna. En það er alveg ljóst að það er til að koma í veg fyrir að stöðugleika gjaldeyrismarkaða verði ógnað. Þetta er fyrst og fremst til þess að verja íslensku krónuna og ekkert annað og það er reyndar önnur umræða,“ sagði hún.
En á meðan Íslendingar búa við slíkt ástand telur Þorgerður Katrín engu að síður mikilvægt að skilaboðin verði skýr, að stigin verði stærri skref og tekið verði tillit til þessara athugasemda lífeyrissjóðanna um að fjárfesta enn frekar í eignum í útlöndum.
Ekki sanngjarnt að kenna krónunni um
Bjarni svaraði í annað sinn og sagði að meðal þess sem kæmi fram í nýútkominni skýrslu um þetta efni væri að ekki væri ástæða til að ætla að fjárfestingar erlendis væru í eðli sínu eitthvað áhættuminni en fjárfestingar í íslenska hagkerfinu.
„Þess vegna er ekki alveg sanngjarnt að halda því fram að þetta snúist fyrst og fremst um íslensku krónuna. Við verðum engu að síður að taka það með í reikninginn að það getur haft áhrif á gjaldeyrisjöfnuð í landinu ef svona stórar fjárhæðir eru undir. Góðu fréttirnar eru þær að fyrir nokkrum árum komst íslenska þjóðarbúið í fyrsta sinn í jákvæða stöðu gagnvart útlöndum, eftir stöðugleikaframlögin, og sú staða hefur bara vaxið í millitíðinni. Þannig að við getum farið í þessa umræðu af miklu sjálfstrausti. Staða okkar gagnvart umheiminum hefur bara styrkst. Þá stöðu höfum við byggt upp á grundvelli og með stuðningi við okkar eigin gjaldmiðil.“