Eftir því sem lífaldur þjóðarinnar hækkar eykst hættan á að lífeyriskerfið ýti undir ójöfnuð á milli þjóðfélagshópa. Þetta kemur fram í grein sem Þorsteinn Sigurður Sveinsson, hagfræðingur Seðlabankans, birti á Kalkofninum fyrr í dag.
Ójöfnuður í lífslíkum
Í greininni sýnir Þorsteinn að mikill ójöfnuður sé í lífaldri á milli mismunandi þjóðfélagshópa hér á landi. Til að mynda er væntur lífaldur íbúa Suðurnesja er tæpum þremur árum lægri en íbúar í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur.
Svipaðan mun má einnig sjá á milli menntunarhópa, en fólk með háskólamenntun geta vænst þess að lifa þremur til fjórum árum lengur en fólk með grunnskólamenntun. Þessi ójöfnuður hefur aukist töluvert hér á landi á síðustu árum, þar sem hækkun lífaldurs hefur verið margfalt meiri á meðal háskólamenntaðra heldur en grunnskólamenntaðra.
Tekjulægri fá minni lífeyri
Mismunandi lífaldur lífeyrissjóðsfélaga leiðir til þess að þeir sem lifa skemur fá minni lífeyri greiddan út en aðrir, þrátt fyrir að hafa borgað jafnhátt hlutfall af eigin tekjum í sjóðinn.
Þorsteinn bendir á að þessi bjögun eykst þegar bilið í lífaldri breikkar á milli sjóðsfélaga, líkt þróunin hefur verið á Íslandi síðustu ár. Einnig eykst bjögunin ef lífeyristökualdurinn hækkar, þar sem slík hækkun hefur hlutfallslega meiri áhrif á útgreiddan lífeyri þeirra sem lifa skemur.
Sömuleiðis gæti meiri fjölgun sjóðsfélaga með háan væntan lífaldur skert lífeyrisgreiðslur, þar sem dreifa þarf lífeyrisgreiðslunum yfir á fleiri ár. Þetta hefði verst áhrif á þá þjóðfélagshópa sem lifa skemur, en þeir gætu setið uppi með skertrar lífeyrisgreiðslur án þess að lífaldur þeirra hafi hækkað að ráði.
Með hækkandi lífslíkum tekjuhárra þjóðfélagshópa gætu skuldbindingar lífeyrissjóðanna einnig hækkað töluvert, þar sem lífeyrisgreiðslur eru fast hlutfall af tekjum.
Þar sem þeir tekjuháu lifa lengur en meðalsjóðsfélagi vegur þessi skuldbinding þyngra en samsvarandi hækkun iðgjalda, svo nauðsynlegt er að skerða lífeyrisgreiðslur til allra sjóðfélaga. „Þar með skerðist lífeyrir þeirra sem hafa lægri væntan lífaldur við það eitt að tekjur þeirra sem lifa að jafnaði lengur hækka,“ skrifar Þorsteinn í greininni sinni.
Umbætur gætu jafnað stöðuna
Þorsteinn segir að tveir mikilvægir áhrifaþættir vegi að hluta til á móti þessari bjögun á Íslandi, en það er annars vegar uppskipting lífeyrissjóða eftir starfsstéttum og hins vegar að mismunandi lífslíkur og hætta á örorku sé metin fyrir hvern sjóð fyrir sig.
Þó bætir hann við að íslenska kerfið gæti sannarlega gengið lengra í að taka tillit til mismunandi vænts lífaldurs landsmanna, til dæmis með umbótum í samtryggingardeildum lífeyrissjóða eða almannatryggingum. Í því samhengi nefnir Þorsteinn einnig nýlegar umbætur á danska lífeyriskerfinu, þar sem Danir sem hafa unnið líkamlega strembna vinnu og fóru ungir út á vinnumarkað fara nú fyrr á eftirlaun.