Hæstiréttur segist ekki fá séð hvernig lögregla gæti almennt hagað símhlerunum á annan hátt en hún gerði í Al-Thani málinu. Þetta kemur fram í dómi réttarins yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni, Magnúsi Guðmundssyni og Ólafi Ólafssyni.
Hinir ákærðu fóru fram á frávísun málsins, meðal annars á grundvelli þess að lögreglan hafi tekið upp símtöl þeirra við verjendur sína. Sérstakur saksóknari hefur viðurkennt að fjórum símtölum milli Hreiðars Más og verjanda hans hafi ekki verið eytt á réttum tíma, en hefur ávallt neitað því að hlustað hafi verið á upptökur á milli sakborninga og verjenda.
Í málsvörn ákærðu kom fram að lögreglumann sem hafi hlustað á símtöl hljóti að hafa þurft að hlusta á öll samtöl í heild eða að hluta, þótt þeir hafi svo átt að hætta að hlusta ef samtöl væru við verjanda. Þannig hafi réttur sakborninga til trúnaðar um samtöl við verjenda verið skertur.
Hæstiréttur segir í dómi sínum að ekkert sem tengist símtölum ákærðu og verjenda þeirra hafi verið lagt fram í málinu. Þannig sé það alls kostar ljóst að slík gögn hafi á engan hátt verið nýtt til sönnunar fyrir dómi. Engin rök hafi verið færð fyrir því að upptökurnar hafi haft áhrif á rannsókn málsins, eða að hætta hafi verið á því.
Ekki hægt að láta aðra um hleranir
Fyrir dómi sögðu verjendur að lögreglan hefði átt að haga hlustun á annan veg til að tryggja að trúnaður sakborninga við verjendur sína væri virtur, til dæmis með því að aðrir en starfsmenn lögreglunnar hefðu gengið úr skugga um hvort samtöl væru við verjendur áður en lengra yrði haldið.
Hæstiréttur segir hins vegar að ekki verði séð hvernig lögreglan gæti hagað hlustun öðruvísi en gert var. Lögreglan geti ekki séð það fyrir hvort símtal sakbornings kunni að vera við verjanda fremur en annan, og að lögreglan hafi enga heimild til þess að láta aðra um „framkvæmd þess inngrips í friðhelgi einkalífs manna að hlusta á símtöl þeirra.“
Kærðu hleranir til ríkissaksóknara
Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más, kærði málið til ríkissaksóknara sínum tíma, eftir að í ljós kom að fjögur símtöl þeirra á milli voru meðal varðveittra símtala hjá sérstökum saksóknara. Þetta fékk Hörður Felix upplýst í bréfi frá sérstökum saksóknara í lok árs 2011. Hann kærði málið til ríkissaksóknara 11. mars 2013. Í bréfinu frá sérstökum saksóknara kom fram að ekki hefði verið hlustað á símtölin á milli Hreiðars Más og Harðar Felix. Sagði sérstakur saksóknari þá að fyrir mistök hafi símtölunum fjórum ekki verið eytt eins og skylt var að gera samkvæmt lögum.
Ríkissaksóknari tók skýringar sérstaks saksóknara gildar, og taldi ekki ástæðu til frekari rannsóknar. Líkt og kemur fram hér að framan hefur Hörður Felix byggt á því að á öll símtöl sem tekin voru upp hafi verið hlustað að einhverju marki, þótt hlustun hafi verið hætt þegar í ljós hafi komið að um samtöl við verjanda væri að ræða.
Hörður fór fram á það að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, og fimm starfsmenn embættisins kæmu fyrir dóm og skýrðu hleranir. Hæstiréttur hafnaði því.
Mikil umræða um hleranir
Mikið hefur verið rætt um framkvæmd hlerana hjá embætti sérstaks saksóknara, ekki síst eftir að greint var frá umfangi hlerana, en dómstólar veittu 875 leyfi til hlerana á árunum 2008 til 2012. Aðeins sex beiðnum var hafnað.
Í dómi héraðsdóms í svokölluðu Imon-máli í júní í fyrra var vikið að hlerunum embættis sérstaks saksóknara á símtölu ákærðu, Elínar Sigfúsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Landsbankans, Sigurjóns Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra og Steinþórs Gunnarssonar, fyrrverandi yfirmanns verðbréfamiðlunar. Þar sagði:
„Með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga um meðferð sakamála bar rannsakanda að láta af símhlustun og stöðva upptöku þegar ljóst var að um var að ræða samtal milli ákærðu og verjenda þeirra. Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 85. gr. sömu laga bar jafnframt að farga upptökum símtalanna þegar í stað. Hvorugt var gert og fólu framangreindar rannsóknaraðgerðir, eins og að þeim var staðið, í sér brot gegn tilvitnuðum ákvæðum laga um meðferð sakamála.“
Þá kom Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi starfsmaður hjá embættinu, fram í Fréttablaðinu í september síðastliðnum og sagði að lögbrot væru stunduð við símhleranir og að hann hefði bent ríkissaksóknara á það árið 2012. Hann sakaði hana um að hafa látið undir höfuð leggjast að rannsaka ábendingar hans, en því vísaði hún á bug. Hún sagðist jafnframt hafa leitast við að koma á eftirliti með hlustunum.