Ekki verður lagt kapp á að áætlanir um flutning Fiskistofu til Akureyrar á þessu ári standist. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við Morgunblaðið. Þar er haft eftir honum að málið hafi verið rætt í ráðuneyti hans og sú ákvörðun verið tekin, í samráði við forstjóra Fiskistofu, að staldra örlítið við, enda sé ekki ekki búið að afgreiða málið frá Alþingi.
"Það er ekki síst vegna þess að við viljum koma til móts við starfsfólk Fiskistofu og tryggja betur mannauðinn, að við höfum verið að velta því fyrir okkur hvort ekki væri skynsamlegra að gera þetta á eitthvað lengri tíma, en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Með því að gefa okkur lengri tíma í flutninginn tekst okkur betur að nýta þá starfsmannaveltu sem verið hefur hjá Fiskistofu,«"segir Sigurður Ingi. Hann bendir á að starfsmannavelta hjá Fiskistofu hafi veirð 18 prósent í fyrra og að hröð starfsmannavelta hafi verið viðvarandi hjá stofnuninni í lengri tíma. Sigurður Ingi vill hins vegar ekki gefa upp nákvæmlega hvenær flutningur mun eiga sér stað.
Starfsmenn Fiskistofu rísa upp á afturlappirnar
Sigurður Ingi tilkynnti um flutning Fiskistofu seint í júní á síðasta ári. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd, ekki síst af starfsmönnum stofnunarinnar. Í tilkynningu sem starfsfólkið sendi frá sér í lok september síðastliðinn segir að flutningurinn sé ólöglegur og engin fagleg sjónarmið búi að baki. Þá hafi enginn starfsmaður Fiskistofu lýst yfir vilja til þess að flytja með stofnuninni til Akureyrar, að forstjóranum frátöldum. Málflutningur stjórnmálamanna, þar sem landsbyggð og höfuðborgarsvæðinu sé att saman, sé óboðlegur og óþolandi þegar um pólitíska hreppaflutninga sé að ræða, þar sem flytja á sérfræðimenntað fólk, nauðugt viljugt, milli landshluta án málefnalegra skýringa.
Í athugasemdum starfsmanna Fiskistofu til umboðsmanns Alþingis vegna flutningar stofnunarinnar, sem birtar voru í janúar 2015, segir að ákvörðun Sigurðar Inga um flutning Fiskistofu hafði ekki lagastoð og var því ólögmæt. Áform um að leita heimildar þingsins nú í vetur breytir engu þar um. Tal ráðherrans um að ekki hafi verið ákveðið að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar er einnig rangt og hann reynir að afvegaleiða eftirlitsstofnun Alþingis með því.
Þar voru líka gerðar miklar athugasemdir við svör Sigurðar Inga til umboðsmanns fyrir jól vegna málsins. Ráðherra talar þar um áform um að flytja Fiskistofu, en ekki ákvörðun. Þetta er rangt, og ámælisvert, að mati starfsmanna Fiskistofu. Starfsmennirnir vitna í hljóðskrár af fundum með ráðherranum sem og ummæli hans í fjölmiðlum til að stuðnings þessu. „Ráðherra getur ekki bent á lagaheimildir fyrir ákvörðun sinni, sem eðlilegt er, þar sem þær eðli málsins samkvæmt finnast ekki.“