Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra á Vestfjörðum, Vesturlandi, Höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi, hefur ákveðið að lýsa yfir hættustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum allt frá Breiðafirði að Eyjafjöllum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum, en ákvörðunin byggir á því að það hefur verið skraufþurrt á svæðinu að undanförnu og veðurspá næstu daga sýnir ekki neina úrkomu af ráði.
Algjört bann við því að fara með opinn eld
Bann hefur lagt við því að vera með opinn eld á öllu þessu svæði og varðar það sektum. Tilkynnt verður þegar þessu banni verður aflétt.
Að auki er almenningur hvattur til þess að sleppa því alfarið að kveikja eld, hvort sem það er inni eða úti – þar með talið til þess að sleppa því að nota einnota grill, sem og venjuleg grill og sumarhúsaeigendur eru hvattir til þess að kanna flóttaleiðir við sumarhús og gera flóttaáætlun.
Óvissustig, tvö hættustig og eitt neyðarstig
Hættustig almannavarna er sett á ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða. Að lýsa yfir hættustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.
Það sem af er ári hefur einnig verið hættustigi einnig verið lýst yfir vegna jarðskjáldahrinu á Reykjanesi, síðan eldgossins í Geldingadölum og svo auðvitað heimsfaraldurs kórónuveiru. Raunar eru almannavarnir enn á neyðarstigi vegna COVID-19. Ofan á þetta bætist síðan að enn er óvissustig almannavarna á Seyðisfirði vegna skriðuhættu.
Almenningur og sumarhúsaeigendur frá Breiðafirði til Eyjafjalla eru hvattir til að:
- Ekki kveikja eld innan sem utandyra (kamínur, grill, varðeldar, flugeldar og fleira)
- Ekki nota einnota grill sem og venjuleg grill
- Kanna flóttaleiðir við sumarhús
- Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gera flóttaáætlun
- Ekki vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista
- Fjarlæga eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta)
- Bleyta í gróðri kringum hús þar sem þurrt er