Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur enn sem komið er ekki gefið út eina einustu sekt til ökumanna sem gerast sekir um að taka fram úr hjólreiðamanni án þess að lögbundið bil, eða 1,5 metrar, séu á milli bíls og hjólreiðamanns. Þetta kemur fram í svari lögreglu við fyrirspurn Kjarnans.
Í upphafi árs 2020 tóku gildi breytingar á umferðarlögum, sem meðal annars gerðu það refsivert að aka fram úr einstaklingi á hjóli án þess að 1,5 metrar væru á milli bíls og reiðhjóls eða létts bifhjóls. Við þessu broti á umferðarlögum liggur 20 þúsund króna sekt.
Forsvarsmenn tveggja grasrótarsamtaka hjólreiðamanna, Birgir Birgisson formaður Reiðhjólabænda og Árni Davíðsson formaður Landssamtaka hjólreiðamanna birtu opið bréf til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á Vísi á miðvikudag þar sem þeir gagnrýndu auk annars að ekkert virtist vera gert af hálfu lögreglu til að framfylgja þessari nýju lagagrein, hvað þá bregðast við þegar brot á henni væru kærð.
Í bréfi Árna og Birgis segir að ákvæði þessarar lagagreinar séu brotin á hverjum degi, oftast í mesta þéttbýlinu þar sem ólíkar tegundir vegfarenda nýta sama rýmið til að komast leiðar sinnar.
„En það gerist þó líka furðulega oft úti á þjóðvegum landsins þar sem þó er rýmra um hvern vegfaranda. Allt of oft skapast mikil hætta fyrir hjólandi fólk því ökumenn virðast almennt ekki gera sér mikla grein fyrir þeirri hættu sem þeir setja hjólreiðafólk í þegar brotin eru framin og virðast oftar en ekki miða aksturinn meira við það að rispa ekki bílana sína en að hlífa lífi og heilsu hjólreiðafólks,“ skrifa þeir Birgir og Árni.
Lögregla neiti að taka á móti sönnunargögnum
Birgir hefur á YouTube-síðu sinni birt allnokkur myndbönd af glæfralegum framúrakstri bíla í umferðinni, sem hann hefur sjálfur tekið upp með myndavél sem hann festir á reiðhjól sitt. Eitt þeirra má sjá hér að neðan, en þar nánast strýkst bíll
Í bréfi þeirra Birgis og Árna kom fram að hjólreiðafólk hefði margoft kært mál af þessu tagi, og að í mörgum tilfellum hefðu lögreglu verið boðnar myndbandsupptökur af atvikunum til staðfestingar á kæruefninu.
„Móttöku á slíku efni er oftar en ekki hafnað á mjög undarlegum forsendum. Iðulega er vísað í einhver óskilgreind dómafordæmi og hversu ólíklegt sé að efnið dugi til að sanna sök ökumanns,“ segir í bréfi Birgis og Árna.
Í bréfinu beindu þeir Birgir og Árni nokkrum spurningum til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars þeirri hversu oft lögregla hefði sektað ökumenn fyrir brot á 1,5 metra reglunni.
Blaðamanni lék sömuleiðis forvitni á að fá svar við því og beindi fyrirspurn um málið til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Svarið er, sem áður segir, aldrei.