,Sú ákvörðun að neita mér um heilbrigðisþjónustu hafði alvarlegar afleiðingar á líf mitt og gerði illt mun verra,“ sagði Héðinn Unnsteinsson í viðtali við Kastljós í kvöld. Honum var neitað um innlögn á geðdeild vegna gagnrýni á meðferð sjúklings á deildinni nokkrum árum áður en Landlæknir taldi hins vegar ekki að brotið hefði verið á rétti hans. Héðinn greinir frá þessu í bók sinni Vertu úlfur - Wargus Esto, sem kemur út á morgun, en hann var gestur Kastljós RÚV í kvöld eins og áður segir.
Í þættinum í kvöld, og í frétt á vef RÚV, kemur fram að Héðinn hefði um tvítugt verið greindur með geðhvörf. Eftir að hafa náð tökum á veikindum sínum og menntað sig, starfaði hann hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) í rúman áratug en tók við starfi í heilbrigðisráðuneytinu árið 2007.
Hann veiktist svo 2008 og læknir hans og aðstandendur óskuðu eftir því að Héðinn fengi inni á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, þar sem hann hafði dvalið áður. Yfirlæknir deildarinnar neitaði þó að taka við Héðni. Ástæðan var sú að Héðinn hafði í viðtali í Kastljósi tveimur ár fyrr gagnrýnt meðferð sjúklings á deildinni. „Ég skyldi ekkert í þessu, hvernig í ósköpunum velferðarkerfið okkar sem við greiðum fyrir úr sameiginlegum sjóðum getur neitað einstaklingi um meðferð af því að hann hefur einhverjar skoðanir og hafi brotið einhvern trúnað sem ekki er til staðar. Það er einhver trúnaður sjúklings við sjúkrahús,“ sagði Héðinn í Kastljósi.