Rekstur Hafnarfjarðarkaupstaðar, Reykjanesbæjar og Breiðdalshrepps stendur ekki undir skuldsetningu sveitarfélaganna að óbreyttu. Sveitarfélögin þrjú koma verst út í nýrru skýrslu Íslandsbanka um fjármál íslenskra sveitarfélaga 2014. Í skýrslunni er skuldastaða þeirra meðal annars borin saman við veltufé sem hlutfall af tekjum. Í Hafnarfirði, Breiðdalshreppi og Reykjanesbæ er veltufé sem hlutfall af tekjum undir 7,5 prósent og skulaviðmið meira en 150 prósent. Það er hæst hjá Reykjanesbæ, um 240 prósent án HS Veita. Rekstur um 88 prósent sveitarfélaga stendur skuldum og skuldbindingum. Það er lægra hlutfall en árið 2014 þegar rekstur hjá 97 prósent sveitarfélaga stóð undir skuldum og skuldbindingum.
„Ef skuldaviðmið sveitarfélags er 150% og veltufé frá rekstri lægra en 7,5% af heildartekjum er líklegt að það sveitarfélag geti ekki staðið við greiðslu af afborgunum lána öðruvísi en með viðbótar lántöku eða öðru innstreymi fjármagns, eins og til dæmis sölu eigna,“ segir í skýrslunni sem var gefin út í dag. Þar er sveitarfélögum stillt í fjóra hópa eftir fjárhagsstöðu þeirra. Flest sveitarfélaga eru í hópi þar sem skuldsetning er lítil og rekstur stendur vel undir núverandi skuldsetningu, eða um 70 prósent sveitarfélaga. Reykjavíkurborg tilheyrir hópnum „mikil skuldsetning en rekstur stendur undir núverandi skuldsetningu“. Ef Orkuveita Reykjavíkur er undanskilin þá er Reykjavíkurborg í flokki sveitarfélaga þar sem skuldsetning er lítil en rekstur stendur ekki undir skuldsetningu að öllu jöfnu.
Meðal helstu niðurstaða skýrslunnar er samdráttur rekstrarhagnaðar um 19 prósent milli áranna 2013 og 2014 hjá sveitarfélögum landsins. Samdrátturinn skýrist einna helst af samdrætti í rekstrarhagnaði A-hluta, sem dróst saman um tæplega 12 milljarða eða um 44 prósent. Helst skýrist þetta af samdrætti rekstrarhagnaðar hjá Reykjavíkurborg um 6,5 milljarða milli ára. Bent er á að hlutfall skulda sveitarfélaga á móti eignum hafi dregist talsvert saman frá því það náði hámarki í 74 prósentum árið 2009. Hlutfallið er 61 prósent árið 2014 og því hefur dregið úr skuldsetningu sveitarfélaganna síðan þá.