Þau frumvörp sem snúa að losun fjármagnshafta sem hafa verið í smíðum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu eru að verða tilbúin og það er öruggt að þau verða lögð fram á yfirstandandi þingi. Þetta sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Í Morgunblaðinu í dag.
Samkvæmt áætlun á að fresta þingi annan föstudag. Miðað við þau mál sem eru óafgreidd í þinginu má þó ljóst vera að þinglok munu frestast um nokkrar vikur hið minnsta. Bjarni segir við Morgunblaðið að frumvörpin séu í einskonar lokayfirlestri. Allt hans fólk sé að vinna að þeim en ekki sé hægt að setja ákveðna dagsetningu á hvenær málið fer í ríkisstjórn.
Á meðal þess sem verið er að vinna að er skattafrumvarp vegna hins svokallaða stöðugleikaskatts. Auk þess er verið að skoða hvort hægt sé að greiða fyrir gerð nauðasamninga við slitabú föllnu bankanna með tilteknum breytingum. "Við erum að skoða lög um gjaldeyrismál, hvað þurfi þar að gera til þess að undirbúa t.d. útboð vegna aflandskróna sem eru fastar í hagkerfinu en utan slitabúa. Við vinnum þetta þannig að við séum að byggja undir heildstæða áætlun," segir Bjarni við Morgunblaðið.
Sex og hálft ár í höftum
Fjármagnshöft hafa verið við lýði á Íslandi frá því í nóvember 2008. Sitjandi ríkisstjórn hefur haft sérfræðingahópa að störfum við að finna leiðir til að losa um höftin þorra þess tíma sem hún hefur setið að völdum. Í byrjun apríl dró til tíðinda þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tilkynnti óvænt á flokksþingi Framsóknarflokksins að leggja ætti svokallaðan stöðugleikaskatt á innlendar eignir erlendra aðila á Íslandi og að hann ætti að skila hundruðum milljarða króna.
Frumvörpin sem Bjarni mun leggja fram á næstu dögum munu meðal annars snúast um að gefin verði út skuldabréf í erlendri mynt til langs tíma og kvikar krónueignir þannig færðar í langtímaeignir til að leysa út snjóhengjuna, þá tæpu 300 milljarða króna sem eftir eru af aflandskrónum sem eru í eigu annarra en slitabúa föllnu bankanna. Ekki hefur verið gefið upp í hvaða mynt skuldabréfin verða. Bjarni hefur staðfest að til standi að leggja á stöðugleikaskatt en hefur ekki viljað gefa upp hversu breiður skattstofn svokallaðs stöðugleikaskatts verður og hvernig útfærsla hans verður. Það liggur því ekki fyrir hvort að skatturinn eigi bara að ná til slitabúa föllnu bankanna eða fleiri.
Í fullu samræmi við boðaðar lausnir
Sú lausn sem verið er að vinna að er í raun í fullu samræmi við þær leiðir sem Bjarni boðaði í greinargerð sinni til Alþingis um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta sem birt var 18. mars síðastliðinn. Þar sagði að tvær leiðir væru færar til þess að taka á þeim greiðslujafnaðarvanda sem Ísland stendur frammi fyrir við losun fjármagnshafta. Önnur er sú að eigendur innlendra eigna veiti afslátt á þeim í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri. Sú leið er nú kennd við stöðugleikaskatt.
Hin er sú að tryggja að kvikar eignir, þær sem eru líklegar til að vilja fara út úr íslensku hagkerfi við losun hafta, færist í langtímaeignir.