Framkvæmdastjórn um losun fjármagshafta, sem skipuð var af stjórnvöldum í júlí síðastliðnum, hefur undanfarið fundað með slitastjórnum Glitnis, Landsbankans og Kaupþings, sem fara með þessi þrjú stærstu þrotabú Íslandssögunnar. Um er að ræða fyrstu formlegu fundi sem fulltrúar stjórnvalda hafa átt með þeim vegna mögulegrar losunar á fjármagnshöftum sem sett voru síðla árs 2008 til að koma í veg fyrir að gríðarlegt magn eigna streymdi úr íslensku hagkerfi, með tilheyrandi áhrifum á gengi íslensku krónunnar.
Samkvæmt heimildum Kjarnans stóð hver fundur yfir í um tvo til þrjá klukkutíma. Þar voru engin skilyrði fyrir gerð nauðasamninga kynnt heldur farið almennt yfir stöðuna, greiðslujöfnuð íslenska hagkerfisins og nauðasamninga búanna þriggja.
Tillögur lagðar fram á næstunni
Úrlausn á stöðu þrotabúa föllnu bankanna þriggja er lykilatriði í losun hafta. Alls nema eignir þeirra þeirra yfir 2.500 milljörðum króna og þar ef eru um 475 milljarðar króna í íslenskum krónum. Sú upphæð gæti reyndar verið hærri, enda liggur ekki alveg fyrir hvaða aðferðafræði er t.d. að baki verðlagningu á Íslandsbanka og Arion banka í þeim tölum. Eins og staðan er í dag er ekki til gjaldeyrir til að skipta þeim krónum í eigu erlendra aðila í aðra gjaldmiðla. Gjaldeyrisvaraforði Seðlabanka Íslands er 502 milljarðar króna og að langmestu leyti tekinn að láni. Því þarf að finna lausn á málinu, annaðhvort með samningum eða að knýja á lausn stöðunnar með lagasetningu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni við setningu Alþingis í síðustu viku að niðurstöður úr vinnu hópsins og tillögur til Alþingis um lagasetningu varðandi afnám hafta yrðu lagðar fram á næstu mánuðum. „Slíkt ætti meðal annars að ryðja brautina að lyktum skuldaskila slitabúa föllnu bankanna. Komast þarf að niðurstöðum sem eru ávallt í fullu samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldaskilareglur en samrýmist um leið efnahagslegum stöðugleika Íslands og vexti, til framtíðar.“ Sigmundur Davíð sagði einnig að lausnin þyrfti ekki einungis að vera efnahagslega möguleg, heldur líka samfélagslega ásættanleg.
Þetta er brot úr ítarlegri fréttaskýringu Kjarnans um málið. Lestu hana í heild sinni í nýjustu útgáfu hans.