Undanþágulistum og reglum Seðlabankans vegna gjaldeyrismála hefur verið breytt til þess að búa í haginn fyrir frekari skref að losun fjármagnshafta hér á landi. Undanþágulisti bankans takmarkast nú við ríkisvíxla og eitt ríkisskuldabréf (RIKB 15 0408) og hefur flokkum fjármálagerninga á listanum því fækkað með þessari breytingu.
Þetta kemur fram í frétt á vef Seðlabanka Íslands. Fjármagnshreyfingar á milli landa vegna viðskipta með þessi bréf eru því enn undanþegnar takmörkunum laga um gjaldeyrismál. Eigendur þeirra flokka skuldabréfa sem njóta ekki lengur undanþágu er heimilt að selja þau, en mega ekki fjárfesta í öðrum flokkum en þeim sem eru enn á undanþágulistanum.
Aflandskrónur nema nú tæplega fimmtán prósentum af vergri landsframleiðslu og tilgangurinn með breytingum Seðlabankans nú er að búa í haginn fyrir frekari skref að losun hafta. Eigendum þessara aflandskróna verða boðnir fjárfestingakostir sem draga eiga verulega úr líkum á óstöðugleika við losun haftanna.