Á allra síðustu árum hefur orðið „hagfræðingur“ komið fyrir í einni af hverjum hundrað greinum bandaríska dagblaðsins The New York Times. Sem viðmælendur og álitsgjafar tróna þeir á toppnum og komast mun oftar í fréttirnar heldur en sagnfræðingar, sálfræðingar og félagsfræðingar. Það eru þær algengu starfsstéttir sem koma næst á eftir hagfræðingum í greinum blaðsins.
Á vefsíðu NY Times stendur nú yfir umræða um hvort hagfræðingar séu ofmetnir. Sagt er að greining efnahagslífsins sé vissulega afar mikilvæg bæði í stjórnmálum og rökræðum. „En í ljósi lélegrar afreksskrár stéttarinnar þegar kemur að spám og skipulagningu, þá má spyrja hvort vægi hagfræðinga sé of mikið,“ er sagt í inngangi umræðunnar.
Eiga að útskýra og greina en ekki spá
Peter Blair Henry, forseti viðskiptadeildar New York háskóla, telur að mikilvægi hagfræðinga hafi aldrei verið meira en í dag, þrátt fyrir að þeim hafi flestum mistekist að spá fyrir um fjármálakrísuna 2008. Viðhorf hans kemur ef til ekki á óvart en hann er sjálfur hagfræðingur.
Henry er þó gagnrýnin á hagfræðistéttina og telur marga innan hennar hafa fátt fram að færa annað en háreysti. „Með því að reyna að tímasetja efnahagsbólur og hvenær þær springa, á sama hátt og veðurfræðingar spá fyrir um veðrið, þá hafa nokkrir hagfræðingar skapað óraunhæfar væntingar um hvað þeir geta og ættu að gera,“ segir Henry.
Hann telur hagfræðina nýtast best þegar tæki hennar eru notuð til þess að líta með hógværð fram á veginn, fyrst og fremst með því að rýna í sögulega þróun og gögn. Hagfræðingar eigi því að haga sér meira eins og sagnfræðingar en ekki spá nákvæmlega fyrir um breytingar til skamms tíma.
Hagfræðingar fá einn á baukinn
Félagsfræði-prófessor og doktorsnemi í félagsfræðum við Harvard-háskóla, þeir Orlando Patterson og Ethan Fosse, gefa hagfræðingum einn á baukinn í grein sinni á umræðusvæðinu. Þeir segja Nóbelsverðlaunin í hagfræði ekki vera Nóbelsverðlaun heldur einungis „Hagfræðiverðlaun sænska ríkisbankans til minningar Alfreðs Nobels“. Þeir rifja upp ýmis glappaskot hagfræðinga og benda á að flestum Bandaríkjamönnum þykir hagfræði engin vísindi við hlið t.d. læknisfræði eða verkfræði.
„Sá árlegi helgisiður að hagfræðingar veiti sjálfum sér „Nóbelsverðlaun í hagfræði“ sýnist kannski mjög akademískt, en ömurlegar afleiðingar þess að gefa hugmyndum og stefnum hagfræðinga of mikið vægi er of mikilvægt til að hægt sé að hunsa,“ segja þeir í lok greinarinnar.
Umræður New York Times um hvort hagfræðingar séu ofmetnir má lesa hér.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 12. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.