Hagkvæmast væri að byggja brennslustöð fyrir almennt sorp í Álfsnesi að mati starfshóps um framtíðarlausnir fyrir brennanlegan úrgang. Talið er að verkefnið muni kosta um 27 milljarða króna. Urðunarstað Sorpu í Álfsnesi verður lokað árið 2023. Allri urðun verður því hætt eftir tvö ár í mesta lagi. Mörg ár tekur að reisa brennslustöð, hvar sem henni verður að lokum fundinn staður, og flytja verður almennt sorp út til förgunar í millitíðinni.
Skýrsla starfshóps um forverkefni til undirbúnings að innleiðingu framtíðarlausnar til meðhöndlunar á brennanlegum úrgangi í stað urðunar var kynnt í dag. Að verkefninu standa í sameiningu Kalka sorpeyðingarstöð sf., SORPA bs., Sorpstöð Suðurlands bs., Sorpurðun Vesturlands hf. og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Tilgangur verkefnis er að skoða hvers konar brennslustöð þyrfti að byggja til að brenna þetta efni og vinna úr því orku.
Í skýrslunni kemur fram að brennsla á úrgangi sé álitin betri kostur við meðhöndlun úrgangs en urðun. Þetta eigi meðal annars við um losun gróðurhúsalofttegunda við meðhöndlun úrgangs. Útflutningur á brennanlegum úrgangi er sem stendur fær en stefnubreytingar Evrópusambandsins leiða af sér að miklar líkur eru á að sá farvegur lokist á næstu árum.
Notast verður við bestu fáanlegu tækni í brennslu og hreinsun á afgasi. Gert er ráð fyrir einni vinnslulínu sem afkastar rúmlega 16 tonnum á klukkustund. Í skýrslunni er bent á að nýlegar hátækniúrgangsbrennslur séu oft nálægt íbúabyggð og að engar rannsóknir hafi komið fram sem sýni fram á skaðleg áhrif af rekstri þeirra á heilsu fólks eða lífríki.
Sorpbrennslan yrði reist á suðvesturhorni landsins þar sem meira en 80 prósent af úrganginum falla til. Gert er ráð fyrir að árið 2030 muni falla til á Íslandi allt að 130 þúsund tonn af almennu sorpi sem er brennanlegt. Brennslustöðin sem reist verður þarf að hafa slíka afkastagetu þótt áætlanir geri einnig ráð fyrir að með bættri flokkun og endurvinnslu muni draga úr almennu sorpi, þessu sem fólk hendir í gráu tunnurnar. Liður í því er að fólk fari að flokka sérstaklega lífrænan úrgang sem úr verður svo hægt að framleiða moltu til jarðvegsgerðar. Áætlað er að vinnslan í brennslustöðinni muni skila 10 MW af raforku og 28 MW af varma.
Til að setja þetta magn, 130 þúsund tonn af almennu sorpi, í samhengi má nefna að bíll af gerðinni Toyota Auris, sem er frekar hefðbundinn fólksbíll, er í kringum 1.200 kíló. Þyngd almenna sorpsins sem falla mun til nemur því rúmlega 108 þúsund slíkum bílum á ári. Magnið jafnast einnig á við um 23 prósent þyngdar alls bílaflota landsins.
Fimm staðir skoðaðir
Starfshópurinn skoðaði staðarval frá ýmsum sjónarhornum. Til grundvallar voru lagðir fimm staðir sem tilgreindir voru í skýrslu sem gerð var fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið 2020. Þetta eru Helguvík, Álfsnes, Straumsvík, Þorlákshöfn og Grundartangi.
Á grunni flutningahagkvæmni liggur beinast við að staðsetja vinnsluna í Álfsnesi að mati starfshópsins og aukalegur kostnaður á ári hverju við að staðsetja hana á öðrum stað er frá 23 (Straumsvík) og upp í 73 milljónir króna (Helguvík og Þorlákshöfn).
Staðarvalið byggir á fleiri þáttum en hagrænum. Auk kostnaðar við flutninga má nefna sölumöguleika á orku, jákvæða afstöðu samfélagsins, að nægt landrými sé til uppbyggingar og hæfilega fjarlægð frá íbúabyggð. Einnig að gott aðgengi sé að vinnuafli, að möguleikar séu til staðar á föngun CO2 og að ekki sé mikil hætta á náttúruvá.
Niðurstaðan er að Álfsnes sé hagstæðasti kosturinn þegar litið er til þessara þátta, lítið eitt hagstæðari en Helguvík og Straumsvík. Mat hópsins leiddi í ljós að bygging hátæknibrennslunnar í Álfsnesi myndi fela í sér minnstan rekstrarkostnað þar sem kostnaður við flutning úrgangs til stöðvarinnar væri lægstur.
Kostar 20-35 milljarða
Stofnkostnaður hefur verið metinn með grófum hætti, sem og rekstrarkostnaður. Kostnaður við byggingu brennslunnar er áætlaður á bilinu 20 – 35 milljarðar króna.
Fyrir liggur að hliðgjöldin munu ráðast fyrst og fremst af því eignarformi sem verður fyrir valinu. Verði brennslan alfarið í opinberri eigu er líklegt að hliðgjald þyrfti að vera 20 krónur á kíló en verði hún alfarið í einkaeigu er líklegt að hliðgjald yrði 40 krónur, segir í skýrslunni.
Í næsta áfanga verkefnisins þarf að stofna félag sem fær það hlutverk að halda áfram undirbúningsvinnu og þróa ítarlega viðskiptaáætlun um verkefnið.