Stjórn Barclays bankans í Bretlandi hefur ákveðið að auka fjármunina sem eru til skiptanna í bónusgreiðslur um 22 prósent, og nemur upphæðin sem starfsmenn geta fengið í bónusgreiðslur, ef markmið nást, nú 1,86 milljörðum punda, eða sem nemur 372 milljörðum króna.
Hagnaður bankans á síðasta ári lækkaði um 21 prósent milli ára, samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC, og var 2,26 milljarðar punda, eða sem nemur 440 milljörðum króna. Bankinn, sem staðinn hefur verið að fordæmalausri markaðsmisnotkun á gjaldeyrismarkaði, hefur nú hækkað varasjóð til að mæta frekari sektum vegna markaðsmisnotkunar um 750 milljónir punda. Sjóðurinn nemur nú 1,25 milljörðum punda, eða sem nemur um 250 milljörðum króna. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna telur bankann hafa brotið lög, og er talið að það muni krefja bankann um háar sektargreiðslur vegna þessa.
Forstjóri bankans, Antony Jenkins, fékk 1,1 milljónir punda í bónusgreiðslu vegna hagnaðar bankans í fyrra, eða sem nemur 220 milljónum króna. Heildarlaun hans á árinu 2014 námu 5,5 milljónum punda eða sem nemur 1,2 milljörðum króna.