Lágt olíuverð hefur haft gríðarleg áhrif á rekstur olíurisans BP. Nýlega birt árshlutauppgjör félagsins sýnir 1,8 milljarða dollara hagnað á þriggja mánaða tímabili, jafnvirði um 230 milljarða króna, samanborið við um þriggja milljarða dollara hagnað ári áður. Samhliða uppgjörstilkynningu boðar fyrirtækið miklar aðhaldsaðgerðir, þar sem draga á úr kostnaði um allt að sex milljarða dollara fyrir árið 2017.
Fleira hefur haft áhrif á afkomu og rekstur BP en olíuverð. Í júlí síðastliðnum komust strandríki Bandaríkjanna við Mexíkóflóa að samkomulagi við BP um skaðabótagreiðslu olíufélagsins fyrir olíulekaslysið í flóanum árið 2010. Skaðabæturnar jafngilda um 2.500 milljörðum króna og greiðist upphæðin á næstu átján árum.
Verð á olíu hefur lækkað gríðarlega á síðasta eina og hálfa ári. í júní stóð verð á olíufati í um 115 dollurum á hrávörumarkaði en er nú 60 prósent ódýrara og kostar um 47 dollara. Verðlækkanir, og sú staðreynd að verð hefur haldist lágt, er helst rakið til minnkandi eftirspurnar frá Kína, metframleiðslu olíu í Bandaríkjunum og ákvörðunar Sádi Arabíu um að draga ekki úr framleiðslu.
Í uppgjörstilkynningu BP er því spáð að olíuverð á mörkuðum verði 60 dollarar árið 2017, samkvæmt frétt Business Insider um málið. Spáin og áætlun um að draga úr kostnaði fór vel í fjárfesta á hlutabréfamarkaði í dag og hækkuðu um rúmlega tvö prósent við opnun markaða.