Píratar högnuðust um 25 milljónir króna á árinu 2020. Það er er næstum tíu sinnum betri afkoma en á árinu 2019, þegar hagnaðurinn var 2,6 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Pírata sem birtur var á vef Ríkisendurskoðunar fyrr í þessum mánuði.
Flokkurinn var sá eini sem fær greiðslur úr opinberum sjóðum sem skilaði ekki gildum ársreikningi áður en lögbundinn frestur til þess rann út 1. nóvember í fyrra.
Reikningnum var svo skilað 23. nóvember en ágreiningur er milli stofnunarinnar og Pírata um hvernig eigi að tekjufæra framlag úr ríkissjóði til flokksins sem gerði það að verkum að Ríkisendurskoðun gaf Pírötum frest til að bæta úr ætluðum annmörkum.
Á heimasíðu Ríkisendurskoðunar segir að samkvæmt birtum ársreikningi séu framlögin frá ríkinu tekjufærð eftir því sem Píratar telja þau áunnin miðað við dagsetningu og niðurstöðu kosninga þegar Píratar voru fyrst kjörnir á þing í apríl 2013. „Framlög ríkisins til stjórnmálasamtaka eru hins vegar ákvörðuð í fjárlögum hverju sinni og tilheyra framlögin þannig tilteknu fjárlagaári. Með samþykkt fjárlaga myndast þannig fyrst skilyrði til að greiða framlagið og um leið krafa stjórnmálasamtaka til framlaga samkvæmt fjárlögum tiltekins árs. Samkvæmt því ber að tekjufæra framlög frá ríkissjóði á því reikningsári þegar þau eru greidd samkvæmt fjárlögum.“
Niðurstaða rekstrarreiknings ársins 2020 er sú sama samkvæmt báðum aðferðum en aðferð Pírata gerir það að verkum að eignir og eigið fé er 47,3 milljónum krónum hærra en ella væri.
Launakostnaður dróst verulega saman
Á árinu 2019 högnuðust Píratar um 2,6 milljónir króna. Tekjur flokksins, sem eru nær einvörðungu úr opinberum sjóðum, voru 86 milljónir króna á því ári. Mest munaði um framlög úr ríkissjóði til flokksins sem námu tæpum 83 milljónum króna.
Rekstrarkostnaður Pírata var 82 milljónir króna. Þar af kostaði rekstur aðalskrifstofu 65 milljónir króna og rekstur þingflokks Pírata 15,1 milljón króna. Það þýddi að 95,5 prósent af tekjum Pírata fór í rekstrarkostnað á árinu 2019.
Skoðunarmenn ársreiknings Pírata 2019 vöktu athygli á því í áritun sinni að þeim þætti „„rekstur Pírata hafa verið heldur kostnaðarsamur eigi það markmið að nást að flokkurinn eigi nægilegan sjóð til þess að standa straum af kosningabaráttu á komandi ári.“
Afkoma Pírata batnaði mikið á árinu 2020 og hagnaðurinn var, líkt og áður segir rétt um 25 milljónir króna. Rekstrarkostnaðurinn það ár var 71 prósent af tekjum og munaði þar mestu um að laun og launatengd gjöld drógust saman um 14,5 milljónir króna milli ára. Alls dróst rekstrarkostnaður í heild saman um tæplega 20 milljónir króna.
Tekjurnar jukust lítillia milli ára og voru 87,6 milljónir króna. Alls koma 98 prósent tekna Pírata úr opinberum sjóðum, þ.e. vegna framlaga úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum þar sem flokkurinn á kjörna fulltrúa. Það sem upp á vantar voru styrkir frá einstaklingum (142.167 krónur) og félagsgjöld (1.605.940 krónur). Félagsgjöldin fjórfölduðust milli ára.
Eigið fé flokka jókst um 750 milljónir á síðasta kjörtímabili
Framlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði hækkuðu verulega í kjölfar þess að tillaga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka á árinu 2018 um 127 prósent var samþykkt í fjárlögum sem voru afgreidd áður en þingi var slitið í lok desember 2017. Framlög til stjórnmálaflokka áttu að vera 286 milljónir króna en urðu 648 milljónir króna á því ári.
Einu flokkarnir sem skrifuðu sig ekki á tillöguna voru Píratar og Flokkur fólksins.
Fulltrúar allra flokka á Alþingi, þar á meðal sex formenn stjórnmálaflokka, lögðu svo sameiginlega fram frumvarp til að breyta lögum um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í lok árs 2018. Það var afgreitt sem lög fyrir þinglok þess árs.
Þeir níu stjórnmálaflokkar sem fengu nægjanlegt fylgi í síðustu þingkosningum til að fá úthlutað fjármunum úr ríkissjóði fá samtals 728,2 milljónir króna til að skipta á milli sín í ár.
Um er að ræða þá átta flokka sem eiga fulltrúa á þingi auk Sósíalistaflokks Íslands sem hlaut nægjanlegt fylgi í síðustu kosningum til að hljóta framlag.
Það er sama upphæð og flokkarnir fengu samtals síðustu tvö ár. Raunar gera áætlanir stjórnvalda ráð fyrir því að hún haldist óbreytt út árið 2024. Haldi það munu stjórnmálaflokkar landsins alls hafa fengið 3.641 milljónir króna úr ríkissjóði á fimm ára tímabili.
Eigið fé þeirra átta stjórnmálaflokka sem hafa skilað inn gildum ársreikningum vegna ársins 2020 jókst um samtals 747,6 milljónir króna frá árslokum 2017 og fram að síðustu áramótum.