Heildartekjur í viðskiptahagkerfinu, án fjármálastarfsemi og lyfjaframleiðslu, jukust um 18 prósent á milli 2020 og 2021 og voru 5.071 milljarðar króna í fyrra. Um er að ræða þriðju mestu aukningu á tekjum hagkerfisins síðan árið 2002. Tekjurnar hafa aldrei verið jafn miklar í krónum talið og þær voru vel umfram verðbólgu, sem mældist 5,1 prósent í fyrra. Afkoman í viðskiptahagkerfinu í heild var jákvæð um 674 milljarða króna, sem var 500 milljörðum krónum betri afkoma en árið áður.
Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofa Íslands birti í síðustu viku. Rekstrar- og efnahagsreikningarnir eru unnir úr skattframtölum rekstraraðila og telja tæplega 35 þúsund aðila árið 2021 með um 114 þúsund launþega. Í tilkynningu Hagstofunnar er tekið fram að tölur fyrir árið 2021 séu bráðabirgðatölur og að þær verði uppfærðar við næstu útgáfu. Gögnin innihalda eingöngu þá aðila sem skilað hafa skattframtali.
Þeir geirar sem eru undanskildir í úttekt Hagstofunnar áttu líka gott ár í fyrra. Allir stóru bankarnir þrír; Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, högnuðust til að mynda samanlagt um 81,2 milljarðar króna í fyrra. Það er um 170 prósent meiri hagnaður en þeir skiluðu árið 2020.
Fasteignaviðskipti skiluðu mestum hagnaði
Sá geiri sem skilaði mestum hagnaði var fasteignamarkaðurinn. Hagnaður af fasteignaviðskiptum í fyrra var 178 milljarðar króna, enda hækkaði húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu um 18,4 prósent á árinu 2021. Sú þróun hefur haldið áfram á þessu ári og á fyrstu tíu mánuðum ársins 2022 hækkaði verðið um 18,5 prósent. Því má búast við enn meiri hagnaði af fasteignaviðskiptum í ár en á síðasta ári. Hagnaður vegna fasteignaviðskipta var hins vegar tvöfaldur hagnaður þess geira sem var með næst mestar heildartekjur samkvæmt úttekt Hagstofunnar.
Það sem af er árinu 2022 hefur fjöldi þeirra íbúða sem eru í eigu aðila sem eiga fleiri en eina slíka aukist um 735, og hlutfallslega um 0,2 prósentustig af heildaríbúðareign. Nú eru 14,6 prósent allra íbúða í eigu einhverra sem eiga fleiri en eina íbúð. Ef farið er 15 ár aftur í tímann, til ársins 2006, þá var það hlutfall 10,6 prósent og fyrir árið 2003 var það ætið undir tveggja stafa tölu, allt niður í 8,1 prósent árið 1994.
Hagnaður í sjávarútvegi þrefaldaðist
Í tölum Hagstofunnar kemur fram að tekjur sjávarútvegs hafi aukist um 12 prósent milli ára og verið 419 milljarðar króna. Hagnaðurinn í greininni þrefaldaðist milli ára og var 89 milljarðar króna. Engin grein utan fasteignaviðskipta skilaði meiri hagnaði en sjávarútvegur á síðasta ári. Í tilkynningu Hagstofunnar segir að aukninguna megi „helst rekja til almennra framfara í rekstri; aukinna tekna samfara hlutfallslega lægri kostnaði, jákvæðrar afkomu af fjármagnsliðum og bættrar afkomu dótturfélaga.“
Launþegum í sjávarútvegi fækkaði um eitt prósent á árinu 2021 en laun hækkuðu um átta prósent, eða hlutfallslega mun minna en hagnaður geirans milli ára. Þá lækkuðu langtímaskuldir í hlutfalli af eigin fé um fimm prósentustig sem þýðir að fjármagnskostnaður dróst umtalsvert saman. Til viðbótar má nefna að stórir aðilar í sjávarútvegi fjármagna sig að stóru leyti annars staðar en á Íslandi og í öðrum myntum, á mun betri kjörum en bjóðast hérlendis. Þeir gera auk þess upp í helstu viðskiptamyntum sínum en greiða starfsfólki að uppistöðu laun í íslenskum krónum.
Ekki stökk í afkomu tæknitengdra fyrirtækja
Sérstaklega er vakin athygli á því í umfjöllun Hagstofunnar að, ólíkt því sem þekktist sums staðar erlendis, sást ekki mikið stökk í afkomu tæknitengdra greina þótt tekjurnar hafi aukist jafnt og þétt í gegnum faraldurinn frá 2019 til 2021. Tækni- og hugverkaiðnaður, sem var þriðja stærsta atvinnugrein á Íslandi, skilaði 55 milljarða króna hagnaði og átta prósent vexti í tekjum árið 2021. Hátækniþjónusta og upplýsingatækni og fjarskipti voru á svipuðu reiki með um 27 milljarða króna hagnað hvor og um 10 prósent vöxt í tekjum. „Afkomuaukninguna mátti helst rekja til kostnaðarhagkvæmni en launakostnaður hækkaði minna hjá tæknigreinunum en í viðskiptahagkerfinu í heild sinni auk þess sem fjöldi launþega var lítið breyttur. Efnahagsstaða hátækniþjónustu breyttist lítið en í tækni- og hugverkaiðnaði og upplýsingatækni og fjarskiptum jukust skuldir umfram eigið fé um 11 prósent annars vegar og 4 prósent hins vegar á milli ára.“
Mikil áhersla hefur verið á að styðja við tækni- og hugverkaiðnað á Íslandi á undanförnum árum. Áætlaðir árlegir styrkir úr ríkissjóði til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar hafa farið úr 1,3 milljarði króna í 13,8 milljarða króna á átta árum.
Ferðaþjónustan fimmta stærsta greinin
Í kórónuveirufaraldrinum var mikil áhersla lögð á efnahagsaðgerðir til að halda ferðaþjónustunni lifandi og í þeim ham að hún gæti tekið hratt við sér þegar losnaði um ferðatakmarkanir. Það hvernig til tókst mun að mestu koma fram á þessu ári, 2022.
Í fyrra skiluðu hins vegar einkennandi greinar ferðaþjónustu tapi upp á tæplega 3,6 milljarða króna, sem að miklu leyti mátti rekja til bágrar afkomu í flugrekstri. Icelandair Group, stærsta flugfélag landsins, tapaði þannig 13,6 milljörðum króna í fyrra og PLAY tapaði 2,9 milljörðum króna.
Þetta var þó töluverður viðsnúningur frá fyrra ári en tap ferðaþjónustunnar nam þá um 89 milljörðum króna.
Þrátt fyrir hlutfallslega mikla tekjuaukningu hjá ferðaþjónustunni gætti áhrifa kórónuveirufaraldursins enn og var greinin einungis sú fimmta stærsta árið 2021 eftir að hafa verið næst stærst 2019. Heild- og smásöluverslun, tækni- og hugverkaiðnaður og sjávarútvegur voru allar stærri sé miðað við heildartekjur ársins.