Fasteignaverð á Íslandi er ekki óeðlilega hátt þó hækkunin á verðinu hafi verið hröð að undanförnu. Raunverðið hefur hækkað um 25 prósent, frá árinu 2009, en það lækkaði um 40 prósent í hruninu, á árunum 2007 til 2009.
Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans í dag.
Fasteignaverð hefur hækkað mikið á síðustu misserum og ef væri ekki um þær hækkanir að ræða hefði verðbólga hér á landi verið óveruleg á þessu tímabili, segir í hagsjánni. „Þó þarf þó að hafa í huga að raunverð fasteigna lækkaði verulega á árunum 2008 og 2009. Raunverð fasteigna var hæst í október 2007 og lækkaði um 40% fram til ársloka 2009. Frá þeim tíma hefur það hækkað um 25% þannig að enn vantar þriðjung upp á að raunverðið verði eins og það var hæst. Sé horft myndrænt á þróun raunverðsins, og árunum 2005-2007 sleppt, sést að þróunin hefur verið nokkuð jöfn upp á við. Þá má einnig sjá að hækkunartímabilið síðustu 2 ár er ekki ólíkt tímabilunum 1999-2001 og 2002-2004,“ segir enn fremur í hagsjánni.
Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu í júlí 2015 var 1451, segir á vef fasteignaskrá. Heildarvelta nam 53,8 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 37,1 milljónir króna. Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 35,6 milljörðum, viðskipti með eignir í sérbýli 15,4 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 2,8 milljörðum króna.
Þegar júlí 2015 er borinn saman við mánuðinn á undan fjölgar kaupsamningum um 331,8% og velta eykst um 327,7%. Þarna munar mest um áhrifin af verkfalli lögfræðinga hjá sýslumannsembættum en þinglýsingar lágu niðri meðan á því stóð. Í júní 2015 var 336 kaupsamningum þinglýst, velta nam 12,6 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 37,4 milljónir króna.