Það er ánægjulegt að stjórnvöld eru ekki búin að kæfa niður hugmyndir um lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands. Ekki er nú skortur á neikvæðum röddum í garð þess verkefnis, jafnvel þó ekki sé enn búið að safna saman öllum upplýsingum um það og skoða hver áhrifin af því gætu orðið fyrir þjóðarbúið. Sá sem hefur verið einna duglegastur í þeirri gagnrýni er pistlahöfundur mbl.is, Viðar Garðarsson markaðsráðgjafi.
En svo hafa líka komið jákvæðar raddir í garð verkefnisins, nú síðast frá Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Hann segir sæstreng milli Íslands og Bretlands vera áhugavert verkefni, en það þurfi að undirbúa það vel.
Dótturfyrirtæki ríkisins, Landsvirkjun, hefur selt megavattið af raforku til þriggja álvera á 20 til 30 Bandaríkjadali. Samkvæmt upplýsingum sem fram komu á fundi sem Kjarninn hélt um þessi mál, 20. apríl síðastliðinn, þá er hægt að fá margfalt hærra verð fyrir megavattið með sölu um sæstreng til Bretlands. Sé mið tekið af samningum sem gerðir hafa verið nú þegar í Bretlandi, þá gæti verðið verið á bilinu sjö til tífalt hærra, að því er fram kom á fundinum, meðal annars í máli Charles Hendry, fyrrverandi orkumálaráðherra Bretlands og nú ráðgjafa, og Sigþórs Jónssonar, framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa, sem rannsakaði ýmsar forsendur þessa verkefnis í háskólanámi sínu.
Auk þess hafa samningar, sem gerðir hafa verið í Bretlandi, verið með ákveðnu botnverðsviðmiði, sem er margfalt hærra en það verð sem álverin hafa greitt Landsvirkjun, sem síðan dregur úr áhættu fyrir seljandann vegna verðsveiflna á markaði.
Hreinn hagnaður af raforkusölu um strenginn á ári gæti numið um hundrað milljörðum króna, miðað við núverandi gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal, og forsendur sem taldar eru raunhæfar.
En einfalt er málið ekki, svo mikið er víst. Tæknilegu áskoranirnar eru margar, enda yrði strengurinn um þúsund kílómetrar að lengd, og sá lengsti í heimi miðað við núverandi stöðu mála. Það eitt kallar á góða undirbúningsvinnu og ítarlega skoðun. Landsvirkjun hefur greint frá því ítrekað, að sæstrengurinn sé ekki verkefni sem kalli á nýjar virkjanir eða mikla aukningu í framleiðslu. Slíkt sé ekki forsenda fyrir því.
Augljóslega eru einnig hagsmunir undir í þessum málum, bæði pólitískir og viðskiptalegir. Alþjóðlegu stórfyrirtækin Alcoa, Rio Tinto og Century Aluminum, sem kaupa um 75 til 80 prósent af raforku sem Landsvirkjun framleiðir á Íslandi, munu t.d. vafalítið vilja verja sína hagsmuni, eins og eðlilegt er í heimi viðskiptanna. En framsýnir stjórnmálamenn þurfa líka að horfa á málin út frá almannahagsmunum, og reyna að meta hver áhrifin af verkefni eins og sæstreng geta verið fyrir þjóðarbúið.