Hagstofa Íslands segir að horfur séu á því að hagvöxtur verði 5,1 prósent í ár og 2,9 prósent á næsta ári, samkvæmt nýrri þjóðhagsspá sem birt var í dag.
Þetta er öllu kröftugri hagvöxtur en stofnunin gerði ráð fyrir í síðustu þjóðhagsspá sinni, sem sett var fram undir lok mars. Þá var búist við 4,6 prósenta hagvexti á þessu ári og 2,7 prósenta hagsvexti árið 2023.
Ferðamenn hafa verið fleiri það sem af er ári en búist hafði verið við og nú er búist við því að um 1,6 milljón ferðamanna sæki landið heim í ár, en fyrri spá frá því í mars gerði ráð fyrir því að fjöldi þeirra yrði um 1,4 milljónir.
Í þjóðhagsspánni segir að innlend eftirspurn hafi reynst kröftug það sem af er ári, en óvissa um verðbólguhorfur innanlands og erlendis hafi aukist. Verðbólguhorfur eru nú talsvert verri en þær voru í síðustu útgáfu þjóðhagsspár. Þá var gengið út frá því að verðbólgan yrði að meðaltali 5,9 prósent á árinu og myndi hjaðna niður í 3,5 prósent á næsta ári.
Nú er gert hins vegar gert ráð fyrir því að verðbólga verði 7,5 prósent að meðaltali í ár, 4,9 prósent árið 2023 og 3,3 prósent árið 2024. Eftir það er gert ráð fyrir því að verðbólgan nálgist 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans.
Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um sem nemur 3 prósentum af vergri landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi og segir Hagstofan nú horfur á neikvæðum afgangi á árinu sem nemur 1,2 prósentum af vergri landsframleiðslu.
Í fyrri þjóðhagsspá var gert ráð fyrir 0,1 prósent afgangi og segir stofnunin muninn að miklu leyti stafa af verri viðskiptakjörum en áður var gert ráð fyrir.
Hagstofan segir spennu á vinnumarkaði hafa aukist með auknum efnahagsumsvifum, að spurn eftir starfsfólki sé mikil og býst stofnunin við að atvinnuleysi verði áfram lágt næstu árin, eða á bilinu 3,7-3,8 prósent að meðaltali út árið 2024.