Hagstofa Íslands sér enga ástæðu til að endurskoða hagtölur sínar sem birtar voru í síðustu viku og sýndu 0,5 prósent hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins. Flestar spár höfðu gert ráð fyrir að hagvöxtur yrði um og yfir þrjú prósent. Í forsendum fjárlagafrumvarps ársins 2014 var til að mynda gert ráð fyrir að hann yrði 2,7 prósent.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á fundi vegna vaxtaákvörðunar í dag að hagtölur sem sýndu litla einkaneyslu, eins og lesa mátti um í hagtíðindum sem birtust 5. desember, væru „algjörlega á skjön“ við flesta mælikvarða sem notaðir væru til þess að meta veltu í hagkerfinu.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að það kæmi honum ekki á óvart að hagtölur Hagstofunar, sem sýndu einungis o,5 prósent hagvöxt það sem af er ári, yrðu endurskoðaðar.
Samdráttur á þriðja ársfjórðungi
Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Rósmundur Guðnason, sviðsstjóri efnahagssviðs Hagstofu Íslands, hins vegar ekkert vera í niðurstöðunum sem þau hafi séð ástæðu til að breyta.
Rósmundur segir það geta verið að hluti af tölum um innflutning á þriðja ársfjórðungi eigi ekki eftir að skila sér fyrr en á fjórða ársfjórðungi. „Við teljum hins vegar að það sé enginn munur á þessu og öðrum áætlunum sem við höfum gert. Það virðist vera meiri samdráttur á þriðja ársfjórðungi. En svo verður spennandi að sjá hvernig jólin koma út en þá ætti einkaneyslan að aukast. Þessar tölur verða svo endurskoðaðar þegar við birtum fyrstu niðurstöður fyrir árið."