Landsframleiðsla Íslands jókst um 8,6 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 borið saman við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands sem birtir voru í dag. Hagvöxtur mældist 4,3 prósent allt árið í fyrra eftir 7,1 próent samdrátt á árinu 2020.
Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að þjóðarútgjöld hafi aukist um 11,2 prósent að raungildi, einkaneysla um 8,8 prósent, samneysla um 1,5 prósent og fjármunamyndun um 20,3 prósent.
Sú mikla aukning sem er í einkaneyslu skýrist að umtalsverðu leyti af auknum ferðalögum og neysluútgjöldum Íslendinga erlendis á fyrsta ársfjórðungi 2022, eftir að takmörkunum sem settar voru á ferðalög vegna kórónuveirufaraldursins var aflétt. Þá mældist einnig umtalsverð aukning í kaupum heimila á nýjum bílum á tímabilinu en samdráttur varð í kaupum á áfengi, húsbúnaði og innréttingum.
Í umfjöllun Hagstofunnar segir að aukning í þjónustuviðskiptum við útlönd, sem er aðallega vegna mikillar fjölgunar á komu ferðamanna hingað til lands, sé söguleg. Alls jókst útflutt þjónusta um 80,8 prósent borið saman við fyrstu þrjá mánuði ársins í fyrra þegar ferðaþjónustan var í lamasessi vegna faraldursins. Alls fóru 245 þúsund erlendir farþegar um Keflavíkurflugvöll nú samanborið við tæplega tólf þúsund á sama tímabili 2021.
Á móti jókst þjónustuútflutningur um 68,7 prósent, sem skýrist aftur af auknum ferðalögum Íslendinga erlendis „Vöxtur í inn- og útflutningi þjónustu hefur ekki mælst meiri frá því að ársfjórðungslegar mælingar landsframleiðslu hófust hér á landi,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar.
Starfandi fjölgaði um 8,2 prósent
Heildarfjármunaeign jókst um 20,3 prósent á fyrsta ársfjórðungi. Í umfjöllun Hagstofunnar segir að þar hafi mest munað um aukna fjármunamyndun atvinnuvega, sem mældist 38,3 prósent, en án fjárfestinga í skipum, flugvélum og stóriðjutengdri starfsemi mældist vöxturinn 19,4 prósent. „Skýrist munurinn einkum af umtalsverðum fjárfestingum í flugvélum á tímabilinu en samdráttur mældist í fjármunamyndun stóriðju og tengdra greina borið saman við sama tímabil fyrra árs. Inn- og útflutningur skipa og flugvéla kemur með beinum hætti fram í fjárfestingu ýmist til hækkunar eða lækkunar. Þessi stærð skiptir oft sköpum varðandi heildarfjárhæðir í fjárfestingu og utanríkisviðskiptum en áhrif á landsframleiðslu eru aftur á móti minniháttar þar sem fjárfestingaráhrifin vega á móti áhrifum á utanríkisviðskipti.“
Áætlað er að fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði hafi numið um 40,8 milljörðum króna á tímabilinu og hafi dregist saman um 6,8 prósent að raungildi borið saman við fyrsta ársfjórðung 2021. Áætlað er að fjármunamyndun hins opinbera hafi aukist um 1,4 prósent að raungildi á sama tímabili.
Atvinna hélt áfram að aukast á fyrsta ársfjórðungi samhliða því að efnahagslífið tók við sér þegar takmörkunum vegna faraldursins var aflétt. Áætlað er að heildarfjöldi unnina stunda hafi aukist um 7,5 prósent á fyrsta ársfjórðungi en þeim hefur fjölgað á hverjum ársfjórðungi frá því í lok mars í fyrra. Starfandi einstaklingum fjölgaði um 8,2 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins borið saman við sama tímabil 2021. Skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun var 4,5 prósent í aprílmánuði. Almennt atvinnuleysi í faraldrinum mældist mest í janúar 2021, 11,6 prósent, og heildaratvinnuleysi að meðtöldum þeim sem enn voru á hlutabótum í þeim mánuði var 12,8 prósent.
Mestur var samdrátturinn á öðrum ársfjórðungi 2020 þegar fjöldi vinnustunda dróst saman um 11,3 prósent fyrstu mánuðina eftir að faraldurinn skall á.