Hagvöxtur í Bandaríkjunum mældist 1,5 prósent á þriðja ársfjórðungi, töluvert undir spám, en gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði á bilinu tvö til þrjú prósent á þessu ári. Á kynningarfundi Seðlabanka Bandaríkjanna í dag, vegna þeirrar ákvörðunar bankans að halda vöxtum óbreyttum, kom fram að ekki væri lengur sérstaklega horft til þess að ástand mála á mörkuðum utan Bandaríkjanna væri óvissu háð, heldur frekar að áfram yrði metið gaumgæfilega hvort tilefni væri til þess að hækka vextir áður en árið er úti. Efnahagsbati væri viðvarandi, þrátt fyrir að störfum fjölgi hægar nú en á sama tíma en í fyrra.
Janet Yellen, seðlabankastjóri, hefur ítrekað sagt á þessu ári að bankinn muni hefja vaxtahækkunarferli um leið og efnahagsbatinn í Bandaríkjunum bíður upp á þær aðgerðir. Í byrjun ársins sagði hún að ekki væri ólíklegt að gripið yrði til vaxtahækkana um mitt þetta ár, en nú hefur það dregist, og hafa fjárfestar horft til þess að vextir muni ekki hækka á þessu ári, að því er fram kom í umfjöllun Wall Street Journal. Hafa margir þeirra sett háar fjárhæðir undir í afleiðutengdum viðskiptum, þar sem veðjað er á að vextir muni ekki hækka á þessu ári.
Seðlabankinn gaf sterklega til kynna á fundi sínum í dag að vextir gætu hækkað í desember, á síðastu vaxtákvörðunardegi ársins. Í umfjöllun Wall Street Journal segir að þetta hafi verið gert til að fæla frá spákaupmennskufjárfesta. Fyrir fundinn sýndu merki frá fjárfestum um þriðjungslíkur á því að seðlabankinn myndi hefja vaxtahækkunarferilinn á þessu ári, en líkurnar ruku upp eftir fundinn, og sýndu merki á mörkuðum þá, sem mæla framtíðarhegðun fjárfesta á markaði með vaxtaálag, að ríflega 43 prósent líkur væru nú á því að vextir hækki fyrir lok árs.
Stýrivöxtum í Bandaríkjunum hefur verið haldið við núllið í Bandaríkjunum frá því um mitt ár 2008, eða í rúmlega sjö ár. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum hefur jafnt og þétt minnkað og er nú rúmlega fimm prósent, en fór hæst upp undir tíu prósent í byrjun árs 2009.