Halldóri Ásgrímssyni, fyrrverandi þingmanni og ráðherra, er haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæslu Landspítalans eftir að hann fékk alvarlegt hjartaáfall síðastliðinn föstudag. Halldór var staddur í sumarhúsi sínu í Grímsnesi og var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur.
Halldór er á 68 aldursári. Hann á að baki mjög langan feril í stjórnmálum, var þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn frá 1974 og þar til hann hætti í stjórnmálum árið 2006. Hann var sjávarútvegsráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra, utanríkisráðherra og síðast forsætisráðherra auk þess að vera lengi formaður Framsóknarflokksins. Síðast starfaði Halldór sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, en hann hætti störfum þar árið 2013 eftir sex ára starf.