Í ágúst síðastliðnum voru fluttar út vörur fyrir 47,1 milljarð króna og inn fyrir 48,9 milljarða króna. Vöruskiptin í mánuðinum voru því óhagstæð um 1,8 milljarða króna en í ágúst 2014 voru þau hagstæð um 2,3 milljarða króna.
Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar sem birtir í dag gögn um vöruskiptajöfnuð í ágúst. Á fyrstu átta mánuðum ársins 2015 voru fluttar út vörur fyrir tæplega 432,3 milljarða króna en inn fyrir rúma 440,6 milljarða króna. Hallinn á tímabilinu nemur því tæplega 8,4 milljörðum króna. Á sama tíma árið 2014 voru vöruskiptin óhagstæð um 5,3 milljarða króna. Allar tölur eru á gengi hvers árs.
Verðmæti vöruútflutnings á fyrstu átta mánuðum ársins hefur aukist um 15,5 prósent frá sama tímabili 2014, eða um 57,9 milljarða króna. Verðmæti innfluttra vara hefur aukist um 16,1 prósent, eða um 61 milljarð króna. Hrá- og rekstrarvörur og flugvélar skýra helst aukinn innflutning, að því er Hagstofan greinir frá. Það eru síðan iðnaðarvörur sem skýra stóran hluta verðmætisaukningar útflutnings, en alls nema slíkar vörur 54,1 prósent af heildarútflutningi og hefur verðmætið aukist um 21,5 prósent frá fyrra ári, einkum vegna útflutnings á áli. Sjávarafurðir voru 41,4 prósent alls vöruútflutnings og var verðmæti þærra 15,3 prósentum hærra en á sama tíma árip áður, aðallega vegna útflutnings á fiskimjöli.