Fjármála- og efnahagsráðuneytið lagði á fimmtudag fram breytingartillögur við fjárlagabandorminn svokallaða, sem fela í sér að leyfilegt hámarksútsvar sveitarfélaga verði hækkað um 0,22 prósentustig og hlutfall tekjuskatts lækki um samsvari hlutfall í öllum skattþrepum einstaklinga. Meirihluti fjárlaganefndar gerði tillögurnar að sínum og voru þessar breytingar samþykktar í þinginu síðdegis í gær.
Með þessu er verið að færa um 5 milljarða króna skatttekjur frá ríkinu til sveitarfélaga á árinu 2023, í því skyni að koma til móts við ákall sveitarfélaga um aukið fé til þess að standa straum af útgjöldum vegna málaflokks fatlaðs fólks.
Frekari tillögur mótaðar í samtali ríkis og sveitarfélaga
Áfram verður þó unnið að frekari skoðun á kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum, en í umfjöllun með breytingartillögum ráðuneytisins kemur fram að ekki liggi fyrir „fullnægjandi greining á orsökum þeirrar útgjaldaþróunar sem átt hefur sér stað
í málaflokknum á undanförnum árum“.
Starfshópur er að störfum, sem á að móta frekari tillögur um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum, en það verður gert á grundvelli kortlagningar á kostnaðarþróun málaflokksins. Starfshópurinn hefur einnig það hlutverk að „setja fram valkosti um hvernig stuðla megi að hagkvæmni í þjónustunni og hægja á útgjaldavexti“.
Sveitarfélög landsins hafa reiknað sig niður á það að gliðnun tekna og útgjalda í málefnum fatlaðra, sem voru færð frá ríki til sveitarfélaga í byrjun árs 2011, hafi verið orðinn níu milljarðar árið 2020 og nýverið kom fram af hálfu sveitarfélaga að gliðnunin stefni í 12-13 milljarða króna á þessu ári.
Hækkunin gangi til hlutdeildar Jöfnunarsjóðs í útsvarinu
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra var búinn að boða þær aðgerðir sem nú hafa verið lagðar til af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, en það gerði hann í ræðu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í októbermánuði. Þar nefndi hann reyndar ögn hærri prósentu, eða 0,26 prósentustiga hækkun á hámarksútsvarinu.
Hann sagði í ræðu sinni að öll hækkun útsvarsprósentunnar þyrfti að ganga til hækkunar á hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og er það lagt til af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, en í umfjöllun með breytingartillögum ráðuneytisins segir að gert sé ráð fyrir að hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í útsvari aukist til jafns við hækkun hámarksútsvarsins og hlutfallið fari úr 0,99 prósentum upp í 1,21 prósent.